Sjónlýsing í fyrsta sinn á DVD útgáfu bíómyndar á Íslandi

thor-hetjur-valhallaFyrir tilstilli Blindrafélagsins þá mun hin frábær íslenska teiknimynd Þór – Hetjur Valhalla verða gefin út í haust á DVD með sjónlýsingu. Þetta er í fyrsta skiptið sem mynd er gefin út á Íslandi með sjónlýsingu. Ein af hljóðrásunum verður nýtt undir sjónlýsingu og mun það gefa blindum og sjónskertum áhorfendum óviðjafnalegt tækifæri til að njóta myndarinnar. Sjónlýsing myndarinnar var samin fyrir sýningu hennar sem hluta af dagskrá listahátíðarinnar "List án landamæra" nú síðast liðið vor.  Myndin var einungis sýnd einu sinni í Bíó Paradís. Nú munu hinsvegar þeir sem misstu af þeirri sýningu eiga þess kost að njóta myndina með sjónlýsingu þegar myndin kemur út á DVD. Caoz og Sena, framleiðandi og útgefandi myndarinnar, eiga heiður skilið fyrir samstarfið við að láta þetta merka framtak verða að veruleika.

Hvað er sjónlýsing;
Sjónlýsing er eþgar að sjónræn upplifun er færð yfir í orð þannig að þeir sem ekki sjá geri sér grein fyrir hvað er að gerast. Sjónlýsingar eru notaðar við margskonar aðstæður og tilefni. Svo sem eins og í söfnum til að lýsa því sem er til sýnis, í leikhúsum til að lýsa því sem er að gerast á sviðinu, í sjónvarps- og kvikmyndum til að lýsa því sem er að gerast og einnig við hverskonar aðrar athafnir, eins og brúðkaup, íþróttakappleiki og fleira.