Trúnaðarmenn

Trúnaðarmenn Blindrafélagsins, sem eru blindir eða sjónskertir, liðsinna öðrum blindum og sjónskertum einstaklingum. Starfið felst í að veita andlegan stuðning þeim sem hafa eða eru að missa sjón. Að jafnaði hringja trúnaðarmenn í alla félagsmenn Blindrafélagsins tvisvar á ári og spjalla við þá og veita þeim stuðning.

Enginn er hæfari til að leiðbeina þeim sem hafa misst sjón en sá sem þegar er blindur eða sjónskertur. Blindur eða sjónskertur trúnaðarmaður getur sett sig í spor þess sem aðstoðina sækir. Hann getur verið fyrirmynd um hvernig hægt er að lifa virku og innihaldsríku lífi.

Trúnaðarmaður veitir jafnframt almennar upplýsingar um réttindi og þjónustu við blinda og sjónskerta. Hann á að vera vakandi fyrir nýjungum í tæknimálum og á sviði hjálpartækja og endurhæfingar og hvetja til virkrar þátttöku í samfélaginu.

Trúnaðarmaður er bundinn þagnarskyldu um allt er hann verður áskynja í starfi sínu og varðar skjólstæðinga hans.