Á Íslandi eru nú starfandi um 16 leiðsöguhundar (september 2024), flestir þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Hundarnir eru ræktaðir og þjálfaðir erlendis og svo tekur við samþjálfun hunds og notanda þegar hingað er komið. Samvinna notanda (blindu eða sjónskertu manneskjunnar) og hunds krefst mikillar einbeitingar en hundurinn þarf að lesa í umhverfið, notandi að lesa í viðbrögð hundsins og hundurinn þarf svo aftur að lesa í hvernig notandinn hagar sér.
Því er mikilvægt að hundurinn sé ekki truflaður þegar hann er í vinnunni.
Leiðsöguhundur í beisli líkt og sjá má á mynd er nær undantekningarlaust í vinnunni.
Ef þú hittir vinnandi hund, hafðu þá í huga:
- Ekki ræna athygli hundsins: Þegar leiðsöguhundur er í vinnunni má ekki beina athygli hans frá notandanum eða umhverfinu. Það þýðir að ekki má klappa hundinum, ekki gefa honum að borða og helst ekki horfa í augun á honum.
- Að taka fram úr leiðsöguhundi: Farðu fram hjá notandanum, ekki hundinum. Sé hundurinn vinstra megin við notandann, taktu þá fram úr hægra megin við parið. Þetta á við hvort sem þú ert gangandi, hjólandi eða á hlaupahjóli. Hægðu á þér áður en þú tekur fram úr.
- Ef þú ert sjálf/ur/t með hund: Gættu þess að þinn hundur sé í ól og að þú hafir stjórn á honum. Hundar í taumi verða sérstaklega óöruggir ef þeir mæta lausum hundum, og það á við um alla hunda. Það getur líka verið hjálplegt að láta viðkomandi vita að þú sért með hund.
- Ef þig grunar að viðkomandi þurfi aðstoð: Bjóddu hana þá fyrst áður en þú gerir eitthvað. Ekki grípa í manneskju með leiðsöguhund og alls ekki grípa í beisli hundsins.
- Ef þú gengur samsíða manneskju með leiðsöguhund: Gakktu þeim megin sem hundurinn er ekki, því hundurinn þarf að geta skynjað vel umhverfið í kringum sjálfan sig og notandann.
- Aðstoð með leiðsöguhund: Notendur leiðsöguhunda eru þjálfaðir í að vinna með sinn hund og atferlinu hans. Ekki grípa inn í nema notandi óski eftir því.