Frá hvolpi til leiðsöguhunds

Leiðsöguhundar eru yfirleitt tilbúnir að hefja störf um tveggja og hálfs árs aldur. Hundarnir eru sérvaldir með tilliti til skapgerðar og hæfileika til að læra. Þegar grunnþjálfun lýkur eru aðeins þeir hundar sem þykja vænlegir til að ná árangri sem leiðsöguhundar þjálfaðir frekar. Meðalstarfsaldur þeirra er átta til tíu ár.

Ræktun
Sjónstöðin er í miklum samskiptum við sænsku þjálfunarbúðirnar Kustmarken[BS1]  sem sjá um ræktun og þjálfun hundanna sem og áframhaldandi samþjálfun og stuðning.

Fósturfjölskylda
Um eða eftir átta vikna aldur flytja hvolparnir til fósturfjölskyldna þar sem þeir búa fyrsta árið. Á þessu fyrsta ári fer hundaþjálfari reglulega í heimsókn til fjölskyldnanna, veitir aðstoð og góðar leiðbeiningar um hundahald.

Prófun
Þegar hundarnir eru orðnir eins og hálfs árs gamlir er kominn tími til að kanna hvort þeir séu efni í leiðsöguhund. Þá þurfa þeir að standast strangar heilbrigðiskröfur og fara í heilbrigðispróf hjá dýralækni.

Þjálfunarferlið
Næstu sex til átta mánuði gengur hundurinn í gegnum stranga þjálfun. Hundinum er kennt að þegar hann er með leiðsöguhundabeislið á sér er hann tveir metrar á hæð og tveir á breidd. Þetta tryggir að hinn blindi eða sjónskerti notandi geti á öruggan hátt gengið fram hjá hindrunum og forðast hættur.

Fornámskeið
Umsækjendur leiðsöguhunda taka þátt í vikunámskeiði. Þar fá þeir greinargóðar upplýsingar um leiðsöguhunda, þjálfunarferlið og umhirðu hundanna. Þá er farið vel í gegnum kosti þess og galla að hafa leiðsöguhund og þá vinnu sem það krefst.

Umsóknarferli
Samkvæmt reglugerð um úthlutanir hjálpartækja (nr. 233/2010) er leiðsöguhundum úthlutað til einstaklinga sem uppfylla mat á að geta nýtt sér leiðsöguhund til aukins sjálfstæðis við umferli. Einnig þarf viðkomandi að hafa sótt námskeið um leiðsöguhunda. Fjöldi hunda sem er úthlutað er ákveðinn af Sjónstöðinni fyrir eitt ár í senn. Þegar það liggur fyrir auglýsir Sjónstöðin að opið sé fyrir umsóknir.

Á námskeiði um leiðsöguhunda kynnist umsækjandi hvernig er að halda leiðsöguhund og hvað það felur í sér. Þó að viðkomandi sé metinn hæfur til að fá leiðsöguhund þarf ekki að þýða að hann fái hund strax, heldur þarf að finna og para hund sem passar við viðkomandi. Það ferli getur tekið umtalsverðan tíma þar sem eiginleikar, skapgerð og þarfir leiðsöguhunda eru ólíkar á milli hunda, rétt eins og eiginleikar fólksins sem notar þá eru ólíkir.

Ljósmynd af leiðsöguhundinum Novu. Nova situr róleg og fær klapp á kollinn. Hún er með rauða ól og í leiðsöguhundabeisli. Í bakgrunn má greina tvær manneskjur við hlið hennar.