Erfðagjafir

Þó nokkur dæmi eru um að Blindrafélagið og önnur sambærileg samtök séu arfleidd að verðmætum. Í gegnum árin hafa erfðafjárgjafir skipt miklu máli í að styðja við starfsemi samfélagslega mikilvægra verkefna á vettvangi frjálsra félagasamtaka.

Langflestir kjósa að skipta verðmætum sínum eftir sína daga á milli fjölskyldu, ættingja og vina. Dæmi eru þó um fólk sem ekki á neina lögerfingja eða kýs af einhverjum ástæðum að láta öll sín verðmæti eða hluta þeirra renna til tiltekinna verkefna sem einhverra hluta vegna standa þeim nærri.

Þær erfðafjárgjafir sem Blindrafélaginu hafa áskotnast í gegnum áratugina hafa allar verið félaginu afskaplega verðmætar og eiga ríkan þátt í að mörg mikilvæg hagsmunamál blindra og sjónskertra Íslendinga hafa orðið að veruleika. Í undantekningartilvikum hafa erfðafjárgjafir verið svo skilyrtar að vandkvæðum hefur verið bundið að fara að vilja erfðafjárgjafa.

Þeim sem hafa hug á að láta erfðafjárgjafir renna til Blindrafélagsins og hafa þær skilyrtar að einhverju leyti er bent á styrktarsjóðinn Stuðningur til sjálfstæðis.