Markmið Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, er að auka möguleika þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða daufblindir til virkni og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra, með áherslu á stuðning til náms, sjálfstæðs heimilishalds, virkra tómstunda og atvinnuþátttöku.
Stofnunin skal veita þjónustu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar. Jafnframt skal hún þjóna hlutverki þekkingarmiðstöðvar sem aflar og miðlar þekkingu á aðstæðum notenda í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum.
Stofnunin skal hafa yfirsýn yfir aðstæður þeirra sem eru blindir eða sjónskertir og gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum sem veita umræddum notendum þjónustu. Hún skal einnig sinna fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir.
Stofnunin veitir daufblindum og aðstandendum þeirra þjónustu til samræmis við þau verkefni sem talin eru upp í 4. gr. á grundvelli fötlunar þeirra. Þjónustan er einungis á þeim sérfræðisviðum sem stofnunin býr yfir og er veitt í samstarfi við aðra aðila og stofnanir sem veita daufblindum þjónustu.
Stofnunin er til húsa á 5 hæð í Húsi Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17, símanúmerið er 545 5800.
Þjónustu og þekkingarmiðstöðin.