Athyglissvæði eru sett við tröppur sem vísa niður og við stefnubreytingu. Minnsta dýpt og breidd á athyglissvæðum er 600 mm (600 mm x 600 mm). Í undantekningartilvikum má minnka athyglissvæði í 400 x 400 mm og er þá tekið mið af umfangi svæðis sem um ræðir.
Þegar athyglissvæði er notað við tröppur niður skal breiddin á því ná yfir alla breidd tröppusvæðisins. Athyglissvæðið skal vera dregið a.m.k. 300 mm frá brún á tröppunum.
Athyglissvæði er sett í leiðarlínukerfi þegar um stefnubreytingu er að ræða til að fólk átti sig á hvar á að breyta um stefnu og í hvaða átt. Það getur ýmist verið doppusvæði eða autt svæði. Út frá athyglissvæðinu halda leiðarlínur áfram.
Við stefnubreytingu sem er minni en 90° er ekki nauðsynlegt að vera með athyglissvæði.
Áþreifanlegar leiðarlínur og athyglissvæði skulu ekki skapa hættu á að fólk hrasi um þær eða verði öðrum hindrun. Hæð á leiðarlínum og / eða, bólum eða þverlínum í athyglissvæðum innandyra á að vera minnst 3,5 ± 0,5 mm (ÍSTN CEN/TR 17621:2021).
Almennt þarf ekki að leggja athyglissvæði við lyftur, fyrir framan neðsta þrep í tröppum, við afgreiðsluborð eða við inngang á rými.
Þar sem notaðar eru tilbúnar athyglissvæðamottur skal grunnflötur mottunnar ekki vera þykkari en 3 mm og brúnirnar skulu að vera rúnnaðar.
Þegar leiðandi mynstur, mismunur á yfirborði gólfefnis er notað til að afmarka umferðaleið ætti auðkenni þess að vera a.m.k. 250 mm breitt.