Gengið niður Laugaveginn
800 metrar
Við gengum niður Laugarveginn síðastliðinn 4. júlí og röltum niður vinstra megin frá Hlemmi. Þetta voru rúmir 800 metrar og á leiðinni rákumst við á 17 auglýsingarskilti og 5 fataslár sem voru fyrir vegfarendum. Við tókum eftir því að hljóðið á umferðaljósunum við Hlemm var svo lágt að varla heyrðist í því. Nánast hvert sem litið var voru tröppur eða kantar fyrir inngöngum. Þá sjaldan sem við rákumst á gott aðgengi var það í raun líkt og að ganga fram á vatnslind úti í miðri eyðimörk.
Okkur fannst þægilegt að koma á lokaða hluta Laugarvegsins. Þar sem veginum hefur verið breytt í göngugötu er minni hætta á að blindir rekist á skilti og slár. Þó hefur ekkert verið gert til að bæta aðgengi inn í verslanir. Sums staðar liggja tröppur ómerktar svo að fólk með sjónskerðingu á auðvelt með að detta niður um þær, en annars staðar er ekkert handriði meðfram þeim svo að fólk getur ekki haldið sér í neitt.
Við þessum vandamálum eru til einfaldar lausnir. Hægt er að setja rampa þar sem eru tröppur og kantar, eða lyftu ef tröppurnar eru of margar. Það þarf að merkja allar tröppur með skærum litum og setja handrið við þær. En til þess að hægt verði að gera þessar lagfæringar þarf að breyta öllum Laugarveginum í göngugötu þar sem bílarnir taka of mikið pláss. Að lokum þarf að hækka hljóðið í umferðaljósunum við Hlemm svo fólk geti labbað öruggt yfir götuna og merkja misjöfnu á milli gangstéttar og götu með upphleyptum merkingum. Þetta er það helsta sem við sáum og íhuguðum á þessum 800 metrum sem við gengum.
Skytturnar þrjár
Áslaug Ýr, Snædís Rán og Helga Dögg.