Fréttir af aðalfundi Blindrafélagsins

Aðalfundur Blindrafélagsins var haldin laugardaginn 9. maí að Hamrahlíð 17. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf  samkvæmt lögum félagsins.

Gulllampi Blindrafélagsins.

Á myndinni eru frá vinstri, Kristinn Halldór Einarsson framkvæmdastjóri Blindrafélagsins, Harpa Völundradóttir, Bergvin Oddsson formaður Blindrafélagsins og fyrir framan situr Edda Bergmann.Á fundinum var þeim Eddu Bergmann og Hörpu Völundardóttur veittur Gulllampi Blindrafélagsins. Í rökstuðningi stjórnar félagsins segir um Eddu Bergmann:

"Edda Bergmann stofnaði Trimmklúbb Eddu 6. september 1987, í húsi Blindrafélagsins, eftir að hún hætti að keppa í sundi fyrir ÍFR. Markmið Eddu var meðal annars að skapa tækifæri fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga til að stunda fjölbreytta heilsurækt. Meðal þess sem í upphafi var boðið uppá var jóga tvisvar í viku og vikulegar gönguferðir með leiðsögn. Sundleikfimi hófst svo í sundlaug Seltjarnaness í lok níunda áratugarins. Árið 1990 fluttist hún í sundlaugina á Grensás þar sem meðal annars var boðið uppá sér tíma fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga. Eddu Bergmann er veittur Gulllampi Blindrafélagsins fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt starf yfir áratuga skeið til heilsueflingar blindra og sjónskertra einstaklinga á Íslandi. Starf sem stuðlað hefur að stuðning til sjálfstæðis blindra og sjónskertra einstaklinga."

Í rökstuðningi stjórnar félagsins segir um Hörpu Völundardóttur:

"Þegar Harpa Völundardóttir lét af störfum hjá Blindrafélaginu á árinu 2014 hafði hún starfað hjá félaginu í 27 ár. 

Allan þann tíma var Harpa í framlínustarfi í móttöku skrifstofunnar, fyrir vikið var hún í miklum samskiptum við félagsmenn og tók á móti mörgum nýjum félagsmönnum, ávalt með líflegri framkomu þegar þeir komu í Hamrahlíð 17. Fáir ef nokkrir þekkja jafn vel félagsmenn Blindrafélagsins og Harpa. Á þeim tíma sem Harpa var starfsmaður félagsins lagði hún jafnframt  á sig ómælda sjálfboðavinnu í félagsstarfinu, svo sem eins og með starfi í nefndum félagsins, með því að standa um margra ára skeið fyrir öflugu tómstundastarfi fyrir félagsmenn og hinum geysivinsælu bingóum. Harpa Völundardóttir er verðugur handhafi Gulllampa Blindrafélagsins fyrir margra ára  dýrmætt framlag til félagsins, bæði sem starfsmaður þess og sem félagsmaður.

Kosning til stjórnar 

Á fundinum fór fram kosning tveggja aðalmanna og tveggja varamanna í stjórn félagsins til tveggja ára. Úrslit í kosningu aðalmanna var eftirfarandi:

Rósa María Hjörvar,  48 atkvæði.   
Baldur Snær Sigurðsson, 38 atkvæði.
María Hauksdóttir, 30 atkvæði.
Hlynur Þór Agnarsson, 23 atkvæði.
Haukur Sigtryggsson, 8 atkvæði.
Inga Sæland, 4 atkvæði.
Auðir og ógildir seðlar voru 7.

Samtals kusu 78 félagsmenn, þar af kusu utankjörfundar 42 og á aðalfundinum kusu 36. Rósa María Hjörvar og Baldur Snær Sigurðsson eru því réttkjörin sem aðalmenn í stjórn Blindrafélagsins til tveggja ára.

Í kosningu varamanna varð niðurstaðan þessi:
María Hauksdóttir, 46 atkvæði.
Patrekur Andrés Axelsson, 46 atkvæði.
Haukur Sigtryggsson, 16 atkvæði.
Auðir og ógildir voru 46.

Samtals kusu 77 félagsmenn, þar af kusu 42 utan kjörfundar og 35 kusu á aðalfundinum. María Hauksdóttir og Patrekur Andrés Axelsson náðu kjöri sem varamenn til tveggja ára. Þar sem að þau fengu jafn mörg atkvæði þá var, í samræmi við lög félagsins, kastað hlutkesti um hvort þeirra skyldi verða framar og vann María það hlutkast. 

Lagabreytingar: 

Samþykkt vara að gera þær breytingar á lögum félagsins (9 og 10 gr.) að sameina kosningu aðal og varamanna til stjórnar félagsins í eina kosningu þar sem atkvæðamagn er látið ráð því hverjir verða aðalmenn og hverjir varamenn.