Blindrafélagið hefur ráðið Steinar Björgvinsson sem verkefnastjóra til eins árs til að sinna upplýsingaaðgengismálum. Steinar, sem er félagsmaður Blindrafélagsins, hefur verið ráðgjafi í tölvu og tæknimálum hjá Þjónustu og þekkingarmiðstöðinni fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Hann mun hefja störf í byrjun maí.
Steinar er vanur vefsíðu forritari og þekkir því til þeirra viðfangsefna sem huga þarf að til að vefsíður séu aðgengilegar blindum og sjónskertu fólki
Hlutverk Steinars mun verða að hafa frumkvæði af því að setja sig í samband við vefumsjónarfólk opinberra vefsvæða sem ekki uppfylla viðmið sem sett eru fram í stefnumótun stjórnvalda um upplýsingaaðgengi og eru ekki að fullu aðgengileg blindu og sjónskertu fólki. Steinar mun bjóða fram ráðgjöf og leiðsögn um hvernig bæta megi úr og fylgja eftir að lagfæringar séu gerðar.
Steinar mun jafnframt starfa með Baldri Snæ Sigurðssyni, tölvu og tækniráðgjafa félagsins að því að auka framboð efnis í vefvarpi Blindrafélagsins.
Það hefur verið ljóst um nokkurt skeið að töluvert rými hefur verið fyrir Blindrafélagið til að gera mun betur og beita sér af meiri þunga í upplýsingaaðgengismálum.
Í ársskýrslu Birkis Gunnarssonar, sem verið hefur aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins undanfarin ár með búsetu í Bandaríkjunum segir meðal annars:
"Aðgengillinn vonast því eftir að fjölgað verði í aðgengisteymi félagsins. Myndi hann glaður sjá um þjálfun fleiri einstaklinga sem hafa áhuga og færni til þess að sinna aðgengisráðgjöf, tæknilegum úttektum og öðrum verkefnum sem stuðla að betri vef."
Það er von Blindrafélagsins að starfskraftar þeirra Birkis og Steinars muni duga til að hleypa auknum krafti í að opinberar vefsíður og rafræn þjónusta verði að fullu aðgengileg blindu og sjónskertu fólki.