Á stjórnarfundi Blindrafélagsins þriðjudaginn 17. desember, samþykkti stjórn Blindrafélagsins ósk Ólafs Haraldssonar framkvæmdastjóra félagsins, um starfslok frá og með 1. júlí 2014. Ólafur hóf störf sem framkvæmdastjóri Blindrafélagsins 2003 og hefur því starfað sem framkvæmdastjóri félagsins í rúm 10 ár. Aðspurður segist Ólafur hafa óskað eftir því að láta af störfum vegna þess að hann sé kominn á eftirlaunaaldur og hann vilji hætta á meðan starfsþrekið er ennþá í góðu lagi, frekar enn að bíða þess að það minnki, en hann verði 68 ára þegar hann lætur af störfum. Ólafur mun sinna sérverkefnum fyrir Blindrafélagið út árið 2014, sem m.a. felast í innleiðingu á nýju bókhaldskerfi sem áformað er að taka í notkun hjá bæði Blindrafélaginu og Blindravinnustofunni í upphafi árs 2015.
Stjórn Blindrafélagsins færir Ólafi kærar þakkir fyrir gott starf í þágu félagsins, en hann hefur verið farsæll framkvæmdastjóri og hefur félagið verið mjög vel rekið, þannig að eftir er tekið, í hans framkvæmdastjóratíð.
Nýr framkvæmdastjóri Blindrafélagsins hefur verið ráðinn frá 1. júlí 2014.
Stjórn Blindrafélagsins staðfesti einróma á fundi sínum þann 17. desember 2013 ráðningu Kristins Halldórs Einarssonar (f 1960) sem framkvæmdastjóra Blindrafélagsins frá og með 1. júlí 2014. Kristinn, sem er núverandi formaður Blindrafélagsins, mun ekki gefa kost á sér til endurkjörs sem formaður félagsins á aðalfundi þess í maí 2014. Kristinn hefur verið í starfi sem verkefnastjóri og formaður hjá félaginu frá 2008 og þekkir starfsemi félagsins mjög vel. Hann mun njóta þess að komast inn í framkvæmdastjóra starfið með því að starfa með núverandi framkvæmdastjóra þar til hann lætur af störfum.
Kristinn er giftur Kristínu sjöfn Valgeirsdóttur, ilmolíufrlæðings og bókara og eiga þau einn son sem er matreiðslumaður.,
Kristinn hefur töluverða reynslu sem framkvæmdastjóri. Hann var framkvæmdastjóri félagasamtaka á árunum 1990 - 1996 auk þess sem hann hefur stjórnað rekstri tveggja fjöskyldufyrirtækja, fyrst rekstrar- og bókhaldsstofu og svo innfluttningsfyrirtækis í matvörugeiranum, þar náðist framúrskarandi góður árangur. Kristinn starfaði svo sem sölu og markaðsstjóri um 3ja ára skeið fyrir Nathan og Olsen og Ekrunu, sem eru meðal stærstu fyrirtækja á Íslandi í viðskiptum með matvörur.
Kristinn hefur sótt sér fjölbreytta rekstrar og stjórnunarmenntun. Má þar nefna Viðurkenndur bókar, rekstrar og viðskiptafræði og verkefnastjórnun og leiðtoganám við EHÍ, auk fleirri styttri námskeiða.