Í þeim niðurskurði sem nú er hafinn hjá RUV er það dagskrá Rásar 1. sem mest er skorin niður, eða um 50% samkvæmt fréttum. Sérstaða RUV á vettvangi fjölmiðlunnar hefur fyrst og fremst falist í dagskrá Rásar 1, mest allt annað dagskrárefni má einnig finna hjá einkareknum útvarps og sjónsvarpsstöðvum, sumt í miklu úrvali.
Hlustendahópur Rásar 1 er einnig einstakur. Í þeim hópi er mikið af eldra fólki. Blint og sjónskert fólk hefur í gegnum árin reitt sig á dagskrá Rásar 1 og aðgengi þess að upplýsingum og menningartengdu efni er stórlega skert með þessum niðurskurði á dagskrá Rásar 1. Eð eins og einn áhyggjufullur félagsmaður skrifaði til stjórnar félagsins um leið og hann kallaði eftir að félagið léti í sér heyra um málið:
"Hún (Rás 1) virkar fyrir okkur ekki aðeins sem afþreying heldur ekki síður sem fastur punktur í tilverunni og er sá vettvangur þar sem við getum fengið upplýsingar um það sem er að gerast í samfélaginu frá degi til dags.Þetta á ekki síst við okkur sem getum ekki af ýmsum ástæðum farið á netið til þess að fræðast um menn og málefni, atburði og uppákomur og annað sem er á döfinni .Þetta er jafnvel eina leiðin fyrir mörg okkar til þess að fylgjast með í samfélaginu.Ég get ekki séð að nein önnur útvarpsstöð muni taka við þessu."
Í 1. grein laga um RUV ohf segir:
"Markmið laga þessara er að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er falin framkvæmd hennar eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð."
Að mati stjórnar Blindrafélagsins er það ekki síst dagskrá Rásar 1 sem hefur stuðlað að því að RUV hefur uppfyllt skyldur sínar eins og mælt er fyrir í 1. grein laga um stofnunina. Það er því skoðun stjórnarinnar að þessi mikli niðurskurður á dagskrá Rásar 1 geti gert það að verkum að RUV uppfylli ekki lengur þær lagalegu skyldur sem stofnuninni eru lagðar á herðar.
Af þeim sökum mótmælir stjórn Blindrafélagsins harðlega þessum mikla niðurskurði á dagskrá Rásar 1. Um leið þá er það ýtrekað að þessi niðurskurðaraðgerðir mun fyrst og fremst bitna á hlustendahóp sem ekki hefur sama val um að nýta sér aðra fjölmiðlun. Þarna er höggvið þar sem hlífa skyldi.