Mannlíf fær meira rými í Borgartúni

Frétt frá Reykjavíkurborg um bætt aðgengi.

Borgartúnið tekur stakkaskiptum þessa dagana. Nýjar gangstéttar og hjólastígar beggja vegna götunnar skapa meira pláss fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Öll ásýnd götunnar verður nútímalegri með mósaíkmunstri í hellulögnum, gróðri og afmörkuðum hjólastígum. 

Sérstakar hellur með upphleyptu mynstri, ýmist bólum eða leiðarlínum, eru settar í hellulögnina til að auðvelda blindum og sjónskertum að komast leiðar sinnar.  Slík lögn er nýlunda í Reykjavík.  Samskonar leiðarhellur verða einnig settar í nýja hellulögn á Hverfisgötu. 

Í dag var verið að malbika hjólastíginn norðan við Borgartúnið og einnig er byrjað að leggja gangstéttarhellur þeim megin, en vinnu við stíga og gangstéttar að sunnanverðu er lokið.  Eftir er að setja upp ljósastaura,  en vegna seinkunar á afhendingu þeirra tefst sá verkþáttur. Enn er lýsing á eldri ljósastaurum og því kemur þetta ekki að sök út frá öryggissjónarmiðum.

Á þessu ári hefur verið unnið í Borgartúni á kaflanum frá Sóltúni að Katrínartúni.  Einnig verður sett upphækkuð göngu- og hjólaleið yfir Snorrabraut. Vinnu við verkið í ár lýkur 5. desember.  Á næsta ári verður unnið í Borgartúninu frá Katrínartúni að Snorrabraut.

Myndir og tengill á nánari upplýsingar eru í frétt á vef Reykjavíkurborgar >>>  http://www.reykjavik.is/frettir/mannlif-faer-meira-rymi-i-borgartuni