Í bréfi dagsettu 29. október 2010 sem bæjarstjóri Kópavogs sendi formanni Blindrafélagsins er haldið uppi málsvörnum fyrir málstað Kópavogsbæjar í deilunni við Blindrafélagið um ferðaþjónustuúrræði fyrir lögblinda Kópavogsbúa.
Inntakið í bréfinu er að Blindrafélagið sé að fara fram á meiri þjónustu fyrir blinda en öðrum fötluðum stendur til boða og að þau akstursþjónustuúrræði sem Kópavogsbær bíður blindum, sem og öðrum fötluðum sé í samræmi við lög. Þessu hafi verið svarað og því hafi erindum Blindrafélagsins verið sinnt, þvert á það sem Blindrafélagið heldur fram.
Blindrafélagið vill í þessu sambandi ítreka eftirfarandi:
- Það er rétt að Blindrafélagið er að fara fram á ferðaþjónustu sem hefur hærra þjónustustig en núverandi ferðaþjónusta fatlaðra býður upp á.
- Ástæðan er sú að Blindrafélagið álítur að núverandi ferðaþjónusta fatlaðra á vegum Kópavogsbæjar uppfylli ekki markmið 35 greinar laga um Málefni fatlaðra frá 1992 og ákvæði 20 greinar í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
- Samkvæmt lögum og mannréttindasamningum á Ferðaþjónusta við fatlaða að uppfylla tilteknar þarfir einstaklinga en ekki einhverja óskilgreinda meðalþörf hópa.
- Blindrafélagið hefur í tvígang óskaði eftir efnislegum viðræðum við Kópavogsbæ um þessi atriði. Bæði við fyrri meirihluta og þann sem nú situr. Ósk félagsins um viðræður hefur nú verið hafnað í tvígang.
- Blindrafélagið eru hagsmunasamtök blindra og sjónskertra og berjast fyrir þeirra hagsmunum. Félagið hefur ekki rétt á að gera sambærilegar kröfur fyrir aðrar notendur Ferðaþjónustu fatlaðra í Kópavogi.
- Ljóst er á öllum viðbrögðum frá bæði núverandi og fyrrverandi forustumönnum Kópavogsbæjar að það er enginn vilji til að finna lausn á þessu máli í samstarfi við Blindrafélagið. Þrátt fyrir skjalfest fyrirheit um hið gangstæði í kosningabaráttunni.
- Blindrafélagið mun ekki skirrast undan þeirri ábyrgð sinni að verja mannréttindi félagsmanna sinni, hvort sem er í Kópavogi eða annars staðar.
- Félagið mun beita þeim lögformlegu leiðum sem færar eru til að fá úr því skorið hvort að þau ferðaþjónustuúrræði sem Kópavogur bíður fötluðum einstaklingum uppá uppfylli markmið laga og mannréttindasamninga sem Ísland á aðild að.