"Í ljósi frétta af því að fyrirhugaðar kosningar til stjórnlagaþings muni verða töluvert frábrugðnar kosningum hér á landi fram til þessa, vill Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, minna Landskjörstjórn á að hugað verði að því að blindum og sjónskertum einstaklingum verði gert kleyft að nýta kosningarétt sinn á sjálfstæðan máta.
Í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem ríkisstjórn hefur skrifað undir og nú er unnið að innleiðingu/lögfestingu á segir:
„29. gr. Þátttaka í stjórnmálum og opinberu lífi.
Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum stjórnmálaleg réttindi og tækifæri til þess að njóta þeirra til jafns við aðra og skulu jafnframt:
a) tryggja að fötluðum sé gert kleift að taka virkan og fullan þátt í stjórnmálum og opinberu lífi til jafns við aðra, með beinum hætti eða fyrir atbeina fulltrúa eftir frjálsu vali, þ.m.t. rétt og tækifæri til þess að kjósa og vera kosnir, meðal annars með því: i. að tryggja að kosningaaðferðir, kosningaaðstaða og kjörgögn séu við hæfi, aðgengileg og auðskilin og auðnotuð,
ii. að vernda rétt fatlaðra til þess að taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum án þvingana með hótunum og til þess að bjóða sig fram í kosningum, að gegna embættum með virkum hætti og að sinna öllum opinberum störfum á öllum stigum stjórnsýslu, jafnframt því að greiða fyrir notkun hjálpartækja og nýrrar tækni þar sem við á,
iii. að fatlaðir geti látið vilja sinn óþvingað í ljós sem kjósendur og að heimilað sé í þessu skyni, þar sem nauðsyn krefur og að ósk fatlaðra, að þeir njóti aðstoðar einstaklinga að eigin vali við að greiða atkvæði,
b) vinna ötullega að mótun umhverfis þar sem fatlaðir geta tekið virkan og fullan þátt í opinberri starfsemi, án mismununar og til jafns við aðra, og hvetja til þátttöku þeirra í opinberri starfsemi, meðal annars: i. þátttöku í starfsemi frjálsra félagasamtaka og samtaka, sem láta sig málefni almennings varða og stjórnmálalíf viðkomandi lands, og í störfum og stjórn stjórnmálaflokka,
ii. því að mynda og gerast aðilar að samtökum fatlaðra til þess að rödd fatlaðra heyrist á alþjóðavettvangi, heima fyrir á landsvísu og innan landsvæða og sveitarfélaga.“
Blindrafélagið álítur að í þessari grein sé að finna leiðbeiningar sem Landskjörstjórn geti nýtt til að tryggja mannréttindi blindra og sjónskertra einstaklinga við fyrirhugaðar kosningar til stjórnlagaþings, Varðandi frekari útfærslu og leiðsögn þá bendir Blindrafélagið á Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.