Blind börn fá loksins réttu hjálpartækin - Frétt á Vísi.is

Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélags Íslands, fagnar skjótum viðbrögðum hjá Reykjavíkurborg eftir að hann benti á að mannréttindi væri brotin á blindum og sjónskertum börnum í grunnskólum borgarinnar.

Blind og sjónskert börn þurfa mörg hver á sérstökum hjálpartækjum að halda við nám og kaupa skólarnir þau tæki samkvæmt ráðleggingum fagfólks. Starfsfólk Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar metur þörf á hjálpartækjum en á undanförnum mánuðum hefur það upplifað stefnubreytingu af hálfu borgarinnar þar sem ekki hafa verið keypt þau tæki sem óskað var eftir.

„Það voru bara keypt einhver allt önnur tæki sem síðan lágu ónotuð," segir Kristinn.

Kristinn ljáði máls á brotunum á Facebook-síðunni Dagbók borgarstjóra á fimmtudag og í morgun fékk hann símtal frá menntasviði borgarinnar þar sem óskað var nánari upplýsinga. „Tveimur tímum síðar fékk ég aftur símtal og þá var búið að leysa málið," segir hann.

Málið kom inn á hans borð sem formanns Blindrafélagsi ns og spurði hann í framhaldinu Jón Gnarr á vefnum hvort þessi stefnubreyting væri komin frá nýjum meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar

„Viðbrögðin komu svo í morgun. Þá var haft samband við mig frá menntasviði Reykjavíkur og ég beðinn um frekari skýringar," segir Kristinn. Að hans sögn hefur hingað til alltaf verið farið í einu og öllu að ráðleggingum fagfólks. Hann segist ekki geta útskýrt af hverju breyting hafi orðið þar á. „Það er bara einhver embættismaður sem ákveður að gera eitthvað annað og þykist vita betur en fagfólkið," segir hann.

Um var að ræða nokkur tilfelli þar sem röng hjálpartæki voru keypt en dæmi um hjálpartæki fyrir blind og sjónskert börn eru stækkunartæki, hallandi lesborð og bækur með blindraletri.

„Þau tæki sem keypt voru dugðu ekki til að nemendur gætu fylgt jafnöldrum sínum eftir í námi. Það er ekkert annað en mannréttindabrot," segir Kristinn.

Eftir að Kristinn fékk staðfest frá menntasviði borgarinnar að rétt tæki yrðu keypt skrifaði hann aðra athugasemd í Dagbók borgarstjóra:

„Mér er bæði ljúft og skylt að greina frá því á þessum vettvangi að brugðist hefur verið við athugasemdum mínum, frá því fyrir helgi, varðandi rétt sem brotuinn var á blindum og sjónskertum börnum í grunnskólum Reykjavíkur. Viðbrögðin voru skjót og ráðstafanir hafa nú verið gerðar til að fara að ráðum fagfólks varðandi kaup á hjálpartækjum. Fyrir það ber að þakka."

Fréttina má sjá með því að smella hér.