Blindrafélagið felur lögmanni að sækja rétt blindra Kópavogsbúa til lögbundinnar ferðaþjónustu

Stjórn Blindrafélagsins hefur ákveðið að fela lögmanni að sækja rétt lögblindra Kópavogsbúa til ferðaþjónustu sem uppfyllir markmið laga og ákvæða í Samningi Sameimuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra einstaklinga. Blindrafélagið hefur allt þetta ár ítrekað leitað eftir viðræðum við bæjaryfirvöld í Kópavogi um málið. Þeim óskum hefur í engu verið sinnt. Breytir þá engu hvort um fyrrverandi eða núverandi meirihluta er að ræða, Núverandi aðilar að bæjarstjórn Kópavogs lofuðu hinsvegar allir að farið yrði að lögum í þessum málum í kosningabaráttunni síðast liðið vor.

Sú afstaða Kópavogsbæjar að hafna eða hunsa með öllu réttmætar kröfur Blindrafélagsins um viðræður milli aðila, með það að markmiði að finna lausnir sem uppfylla skilyrði laga og mannréttindasamninga, hlýtur að vera áhyggjuefni nú þegar til stendur að færa alfarið málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga, en það á að gerast 1 janúar 2011. Er það virkilega svo að fatlaðir einstaklingar megi eiga von á því að það velti á búsetu hvort að mannréttindi þeirra verði virt eða ekki.

 Rökstuðningur og viðhorf Blindrafélagsins

Samkvæmt tölum frá Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, eru um 470 einstaklingar búsettir á höfuðborgarsvæðinu sem skilgreindir eru lögblindir. Fjölmennastir í þessum hópi eru eldri borgarar. Í þessum hópi eru engu að síður einstaklingar á virkum vinnualdri sem hafa fulla starfsorku og vilja vera virkir í samfélaginu. Algengasta orsök þess að þeim einstaklingum tekst ekki að vera samfélagslega virkir er einangrun sem hlýst af því að geta ekki keyrt bifreið eða notað strætisvagna.

Af þeim 470 lögblindu einstaklingum sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu eiga 411 kost á akstursþjónustu með leigubílum, samkvæmt samningum milli Blindrafélagsins og  viðkomandi sveitarfélags, sem sérstaklega eru sniðnir að þörfum blindra og sjónskertra einstaklinga. Af þeim 59 sem ekki eiga kost á þess konar akstursþjónustu, eru 51 búsettir í Kópavogi.

Nú er það svo að Ferðaþjónusta fatlaðra er mjög takmarkandi þjónustuúrræði sem engan vegin svarar þörfum allra einstaklinga sem vilja vera virkir í samfélaginu. Þjónustustig Ferðaþjónustu fatlaðra er einfaldlega ekki ásættanlegt í mörgum tilvikum, þó að í öðrum sé það vissulega fullnægjandi. Þarfir einstaklingana eru mismunandi og ekki er með neinu móti hægt að alhæfa að allir sem þurfa á aksturs og ferðaþjónustu að halda, hafi sömu þjónustuþörf.

Mikilvægast er að þjónustan sé skipulög og veitt út frá þörfum þeirra sem eiga nýta sér þjónustuna en ekki þeirra sem veita hana.

Í lögum nr 52 frá 1992 um málefni fatlaðra er fjallað um ferðaþjónustu við fatlaða, þar segir:

 „35. gr.Sveitarfélög skulu gefa fötluðum kost á ferðaþjónustu. Markmið ferðaþjónustu fatlaðra er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Sveitarfélög setja reglur um rekstur ferðaþjónustu fatlaðra.
Jafnframt skulu fatlaðir eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir skv. 1.–4. tölul. 9. gr. og vegna annarrar sértækrar þjónustu sem veitt er fötluðum sérstaklega.

Úr lögfræðiáliti sem unnið var fyrir Blindrafélagið segir um þessa lagagrein:

"Samkvæmt orðanna hljóðan leggur ákvæðið á sveitarfélög ákveðnar athafnaskyldur. Verða þau af þeim sökum skuldbundin til að veita fötluðum kost á ferðaþjónustu sem hefur það að markmiði að gera ákveðnum hóp fatlaðra1 kleift að stunda atvinnu, nám og njóta tómstunda. Ákvæðið er fortakslaust og ekki er til að dreifa ákvæðum sem leysa ákveðin sveitarfélög undan umræddri skyldu."

Sé tekið mið af einstaklingum sem eru félagar í Blindrafélaginu, hafa verið greindir lögblindir og eru búsettir í Kópavogi, þá getur félagið sagt með fullri vissu að sú ferðaþjónusta sem stendur þeim til boða sé ekki að mæta þörfum þeirra og gera þeim kleyft að stunda atvinnu eða nám og njóta tómstunda.

Í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra, sem íslenska ríkisstjórnin hefur skrifað undir, er fjallað um ferðaþjónustu við fatlaða. Þar segir:

"20. gr. Ferlimál einstaklinga.
Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðra í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því:
a) að greiða fyrir því að fatlaðir geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, þeim hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi,
b) að greiða fyrir aðgangi fatlaðra að hreyfibúnaði, tækjum, hjálpargögnum og beinni aðstoð og þjónustu milliliða í háum gæðaflokki, meðal annars með því að hafa þau á boðstólum á viðráðanlegu verði,
c) að bjóða fram fræðslu og þjálfun í hreyfifærni fyrir fatlaða og sérhæft starfslið sem vinnur með fötluðum, d) að hvetja fyrirtæki, sem framleiða hreyfibúnað, tæki og hjálpargögn, til þess að taka mið af öllum þáttum ferlimála fatlaðra."

Blindrafélagið, Reykjavíkurborg og Hreyfill hafa frá 1997 haft með sér samning um ferðaþjónustu blindra. Þessi þjónusta hefur mælst mjög vel fyrir meðal þeirra sem nýtt hafa sér þjónustuna og í raun haft úrslitaáhrif á möguleika þeirra til virkrar samfélagsþátttöku. Úttektir á vegum Reykjavíkurborgar á ferðaþjónustuúrræðum fatlaðra hafa jafnframt sýnt fram á að ferðaþjónusta blindra er hagkvæmasti úrræðið á vegum Reykjavíkurborgar, ásamt því að bjóða jafnframt upp á hæsta þjónustustigið.

Frekari upplýsingar veitir: Kristinn Halldór Einarsson gsm 661 7809