Árið 2008 var sett reglugerð nr.475/2008 um vernd og aðstoð við fatlaða farþega í flugi. Reglugerðinni er ætlað að tryggja að rekstraraðilar flugvalla og flugrekendur veiti þessum farþegahópi nægilega aðstoð og sporna þannig gegn mismunun gagnvart þeim. Reglugerðin er innleiðing á reglugerð Evrópuþingsins og Evrópuráðsins nr. 1107/2006 frá 5. júlí 2006 um réttindi fatlaðs og hreyfihamlaðs fólks sem ferðast með flugi. Reglugerðin tekur til flugs innan landa Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins.
Nauðsynlegt er að farþegar sem óska aðstoðar á flugvelli eða í flugvél láti vita af þeirri þörf þegar gengið er frá pöntun flugfars. Ber flugrekanda og/eða ferðaskrifstofu að koma beiðni farþega áfram til rekstraraðila flugvallar sem ábyrgð ber á því að veita aðstoðina.
Aðstoð við fatlaða og hreyfihamlaða einstaklinga felst m.a. í að gera þeim kleift að:
fara í gegnum innritun og öryggisleit á flugvelli;
komast um borð í loftfar;
koma farangri fyrir um borð í loftfari;
ná tengiflugi á flugvelli;
komast úr loftfari í gegnum landamæraeftirlit;
fara í gegnum tollskoðun á komustað;
endurheimta farangur á komustað.
Frekari aðstoð felst til að mynda í aðstoð við meðhöndlun og frágang hjálpartækja og stoðtækja, auk miðlun nauðsynlegra upplýsinga.
Þessa þjónustu skulu fatlaðir njóta án þess að greiða gjald fyrir. Ýmsar skyldur hvíla einnig á flugrekendum samkvæmt reglugerðinni. Flugrekendum ber að veita farþegum upplýsingar um flug á aðgengilegu sniði og upplýsingar um þær öryggisreglur sem gilda um flutning fatlaðra einstaklinga ásamt takmörkunum á flutningi þeirra og stoðtækja.
Flugrekendum er ætlað að flytja stoð- og lækningatæki fyrir fatlaða þar með talið rafmagnshjólastóla. Flutningur stoð- og lækningatækja er þó háður því að tilkynning um ætlaðan flutning hafi borist innan settra tímamarka og að laust sé pláss í loftfarinu.
Þá er flugrekanda ætlað að útvega fylgdarmanni sæti við hlið fatlaðs eða hreyfihamlaðs einstaklings, sé það mögulegt. Flugrekandi skal ennfremur gera nauðsynlegar ráðstafanir til að aðlaga sæti fatlaðs og hreyfihamlaðs einstaklings, sé þess óskað, þó með fyrirvara um öryggiskröfur og að slíkt sæti sé tiltækt.
Tákn, sem flugfélög nota
WCHR Farþegar sem eru færir um að ganga upp og niður stiga og ganga um í farþegarými flugvélarinnar en þurfa hjólastól eða önnur ferlihjálpartæki til að komast á milli flugvélarinnar og flugstöðvarbyggingarinnar (terminal), til að ganga þar um og til að ferðast á milli komu- og brottfararstaðar á þeirri hlið byggingarinnar, sem snýr að borginni.
WCHS Farþegar sem eru ófærir um að fara upp og niður stiga en geta gengið um í farþegarými flugvélarinnar og þurfa hjólastól til að komast á milli flugvélarinnar og flugstöðvarbyggingarinnar, til að ganga þar um og til að ferðast á milli komu- og brottfararstaða á þeirri hlið byggingarinnar, sem snýr að borginni.
WCHC Farþegar sem eru algjörlega ófærir um gang, sem ferðast allar sínar ferðir í hjólastól eða öðrum hjálpartækjum og þurfa aðstoð allan tímann, frá komu til flugvallarins við brottför alla leið að sæti sínu í flugvélinni eða í sérstaklega útbúið sæti, ef svo ber undir. Sama gildir, þegar vélin er komin á leiðarenda.
DEAF Farþegar sem eru heyrnalausir eða daufdumbir.
BLIND Farþegar sem eru blindir.
DEAF/BLIND Farþegar sem eru heyrnalausir eða daufdumbir og blindir sem geta eingöngu ferðast með aðstoðarmanni.
STCR Farþegar sem einungis má flytja á sjúkrabörum.
MAAS Allir aðrir farþegar, sem þurfa á séraðstoð að halda (mæta og aðstoða).
Fyrir utan ofangreindar skammstafanir gera leiðbeiningar “ECAC Doc 30“ ráð fyrir enn einum flokki, sem þó hefur enn ekki verið viðurkenndur á alþjóðavísu:
Farþegar, sem eru með hreyfihömlun í neðri útlimum en eru þrátt fyrir það færir um að hugsa um sig sjálfir; þeir þurfa þó aðstoð við að komast um og frá borði og geta einungis hreyft sig í farþegarými flugvélarinnar með hjálp “on-board” hjólastóls.
Smella hér til að opnavef Flugumferðarstjórnar.
Smella hér til að opna reglugerð 475/2008.