Stjórnasveitarfélög búsetu fatlaðra með þjónustu?

Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins

Meðal fatlaðs fólks og þeirra sem starfa með því hefur oft verið rætt um misgóða þjónustu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu gagnvart fötluðum íbúum sínum. Þessi staðreynd er ein meginástæða þeirrar tortryggni sem samtök fatlaðra hafa haft gagnvart flutningi á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Ef mikið misræmi er á þjónustu við fatlaða á milli nágrannasveitarfélaga þá verður að teljast mjög líklegt að fatlaðir einstaklingar kjósi frekar að búa þar sem þjónustan er betri.Afleiðingar slíkrar þróunar eru augljósar. Kostnaður vegna þjónustu við fatlaða færist frá þeim sveitarfélögum sem bjóða slaka þjónustu yfir á þau sveitarfélög sem hafa metnað til að bjóða góða þjónustu.

Sveitarfélög sem leggja metnað sinn í að veita öllum íbúum sínum lög-bundna þjónustu í fullu samræmi við lög og nútímakröfur um full mannréttindi eru ólíklegri til að geta boðið íbúum sínum upp á lægra útsvar, en þau sveitarfélög þar sem fámennari hópur þjónustuþyngri íbúa býr auk þess sem svigrúm til ólögbundinna verkefna eykst ef minna fé fer í lögbundna þjónustu við íbúana. Með því að stýra lóðaframboði, búsetuúrræðum og þjónustuframboði geta sveitarfélög hrakið frá sér tiltekna hópa íbúa og laðað til sín aðra, svo sem tekjuhærri einstaklinga sem sækjast eftir búsetu í sveitarfélögum sem bjóða lægsta útsvarið.

Þessum sveitarfélögum er svo gjarnan hampað af fjölmiðlum fyrir góða fjarmálastjórn á meðan sveitarfélög sem leggja metnað sinn í að sinna lögbundnum verkefnum fá skammir fyrir slakari fjármálastjórn. Líkur á því að látið verði reyna á lögmæti ófullnægjandi þjónustu við t.d. fatlaða íbúa fara svo auðvitað minnkandi eftir því sem íbúarnir  sem reiða sig á viðkomandi þjónustu eru færri.

Síðastliðið sumar  gerði Capacent Gallup skoðanakönnun meðal félagsmanna Blindrafélagsins. Meðal annars var spurt hvað væri mikilvægasta þjónustuúrræðið/hagsmunamálið að mati svarenda.Niðurstaðan var mjög skýr. Ferðaþjónusta er langmikilvægasta þjónustuúrræði/hagsmunamál félaga Blindrafélagsins.

 

Ferðaþjónusta við fatlaða einstaklinga sem ekki geta nýtt sér almennings-samgöngur er lögbundið hlutverk sveitarfélaga. Ferðaþjónusta sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er æði mismunandi og mikill munur er á þjónustu  milli sveitarfélaga. Það er lögfræðilega rökstutt álit Blindrafélagsins að nokkur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu séu ekki að bjóða ferðaþjónustu sem samræmist gildandi lögum eða ákvæðum Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Blindrafélagið hefur tekið saman fjölda lögblindra íbúa á hverja 1000 íbúa í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Niðurstaðan er eftirfarandi*:

Reykjavík:               2,64 lögblindir/1000 íb.
Seltjarnanes:           2,08 lögblindir/1000 íb.
Hafnarfjörður:          1,88 lögblindir/1000 íb.
Kópavogur:             1,46 lögblindir/1000 íb.
Mosfellsbær:           1,27 lögblindir/1000 íb.
Garðabær:              1,01 lögblindir/1000 íb.

Landsmeðaltal:  2,20 lögblindir/1000 íb.  

Af þessum sveitarfélögum eru það eingöngu Reykjavík og Seltjarnarnes sem að mati Blindrafélagsins bjóða öllum sínum lögblindu íbúum upp á ferðaþjónustu sem kemst nálægt því að vera í samræmi við gildandi lög og ákvæði Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hafnarfjörður kemur þar á eftir. Verst er ástandið í Garðabæ og Kópavogi, en þau sveitarfélög brjóta gegn sínum lögblindu íbúum á grundvelli laga að mati Blindrafélagsins þegar kemur að ferðaþjónustu.

Full þörf er á að rannsaka hvort tiltekin sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu fæli frá sér fatlaða íbúa með ófullnægjandi þjónustu.

 

*Upplýsingar fengnar frá Hagstofu Íslands og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.