Slökkviliðsmenn á höfuðborgarsvæðinu sitja nú námskeið til að kynna sér aðferðir fyrir blinda við að rata og átta sig á umhverfinu, m.a. með notkun hvíta stafsins. Kenndar eru leiðir við að skynja hljóð og rými með nýjum aðferðum sem geta komið sér vel við reykköfun.
Námskeiðin eru samstarfsverkefni Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) og Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og eru haldin í kjölfar þess að fulltrúar beggja sóttu námskeið í Búdapest í Ungverjalandi í lok síðasta árs og fengu þjálfun í leiðsögutækni, áttun og umferli blindra. Um er að ræða aðferð sem hefur verið þróuð af Blindraskólanum í Búdapest í samvinnu við Slökkvilið Búdapestborgar eftir að slökkviliðsmenn þar létu lífið þegar þeir fundu ekki útleið á eldstað.
Áhersla er lögð á verklegar æfingar til að átta sig á umhverfi, stærð rýmis, leiðum til að kanna svæði og notkun hvíta stafsins sem hjálpartæki fyrir slökkviliðsmenn í reykköfun. Verkefnið er unnið með stuðningi frá Landskrifstofu Menntaáætlunar ESB sem veitti styrk til verkefnisins.
Myndin með greininni sýnir slökkvilið höfuðborgarsvæðisins að stöfrum. mbl.is/Ernir Eyjólfsson