Umsjónarmenn Opins húss veturinn 2012 – 2013

Af eldri umsjónarmönnum mun Guðrún Ásmundsdóttir vera einu sinni í mánuði, Jón E Júlíusson vera tvisvar og Jónína Jónsdóttir vera einu sinni.

Umsjónarmönnum hefur verið raðað niður á veturinn og verður fyrirkomulagið þannig:
1. vika Guðrún Ásmundsdóttir  á þriðjudag og á fimmtudag Edda Carlsdóttir               
2. vika Guðjón Skúlason á þriðjudag og á fimmtudag Jón E Júlíusson        
3. vika Jónína Jónsdóttir  á þriðjudag og á fimmtudag Anna Sigríður Helgadóttir              
4. vika Hlynur Þ Agnarsson á þriðjudag og á fimmtudag Jón E Júlíusson        
                               
Hér fyrir neðan er stutt kynning á nýju umsjónarmönnunum:
Guðjón Skúlason er 64 ára og starfaði síðustu 14 árin sem starfsmannastjóri Tryggingarstofnunar ríkisins en lét af störfum þar sl. vor. Þar áður starfaði hann lengi innan bankageirans. Guðjón er með hagfræðimenntun. Hann hefur mikið unnið að félagsmálum bæði faglega og persónulega. Hann hefur sungið í kórum og haldið námskeið og fyrirlestra.  Við teljum að Guðjón geti komið með ferskan og áhugaverðan vinkil í félagsstarfið. Hann hefur skemmtilegar hugmyndir um gestaval og gaman verður á sjá hverja hann fær til liðs við sig.
Edda Carlsdóttir er 67 ára gömul ekkja. Hún lærði leiklist, hefur starfað með leikhópum, sungið í kirkjukórum í 30 ár, unnið á Sólheimum í 15 ár, m.a. sem þjónustustjóri. Hún hefur einnig búið erlendis um tíma og m.a. unnið í breska sendiráðinu.
Anna Sigríður Helgadóttir er 49 ára gömul. Hún er lærð söngkona og hefur starfað sem tónlistarstjóri Fríkirkjunnar sl. 11 ár. Anna Sigríður er mjög opin og skemmtileg persóna með gott tengslanet, sérstaklega í tónlistargeiranum. Söngur mun spila stórt hlutverk hjá henni.
Hlynur Þ Agnarsson er varamaður í stjórn Blindrafélagsins og þarf varla að kynna fyrir ykkur. Hann hefur frá ýmsu að segja þó ungur sé. Tónlist mun vafalaust vera í hávegum höfð hjá honum.
Opna húsið mun eftir sem áður vera á þriðjudögum og fimmtudögum frá klukkan eitt til rúmlega þrjú. Kaffihlé verður gert um hálfþrjú leitið.

Steinunn Hákonardóttir, félagsmálafulltrúi mun stjórna starfssemi Opins húss í vetur og samræma dagsskrána. Hún mun einnig stýra starfi umsjónarmannanna. Eftir sem áður mun hún sjálf hafa umsjón með Opnu húsi á laugardögum sem verður á dagskrá eins og undanfarin ár.