Dóra og Karl tala í fyrsta sinn opinberlega

Nýjar íslenskar talgervilsraddir frá Ivona 

Það var á vordögum 2010 sem stjórn Blindrafélagsins ákvað að hafa forgöngu um smíði á nýjum íslenskum talgervli (Text To Speach Engine eða TTS,) sem stæðist samanburð við það besta sem þekkist í erlendum talgervilsröddum. Nú er þeirri smíði lokið og nú eru tilbúnar SAPI raddir til notkunar með Windows í skjálesarabúnað, sem textalesari, sem vefsíðulesari, í Android síma, til notkunar í símkerfum, í hraðbönkum og ýmsum öðrum stafrænum samskiptabúnaði. Þó svo að smíðinni sé nú formlega lokið munu þróun og viðbætur á talgervlinum vera í stöðugu ferli.

Í íslenska talgervillinum eru tvær raddir, kvennmannsröddin Dóra og karlmannsröddin Karl. Það var pólska fyrirtækið Ivona sem annaðist smíðina.

Talgervlinum verður úthlutað án endurgjalds til þeirra sem, sökum fötlunar eða skerðinga, geta ekki lesið með hefðbundnum hætti. Skila þarf inn vottorði um að viðkomandi sé annaðhvort í þjónustu hjá Blindrabókasafni Íslands eða Þjónustu-og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Þeir sem ekki eiga rétt á endurgjaldslausri úthlutun geta keypt sér lesarann og eigendur heimasíðna geta keypt afnot af veflesaranum, ásamt því sem önnur verkfæri eru einnig fáanleg. Auk þess er hægt að fá beta útgáfu af Dóru fyrir Android síma frítt. Sjá frekar á www.ivona.com

Verkefnisstjóri verkefnisins er Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins. Yfirumsjón með málfræðilegum þætti verkefnisins er í höndum Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors í íslensku við Háskóla Íslands og yfirumsjón með aðgengisþætti verkefnisins er hjá Birki Rúnari Gunnarssyni tölvunarfræðingi og félaga í Blindrafélaginu. Sérstakur verndari verkefnisins er frú Vigdís Finnbogadóttir.

Tilvitnanir:

Eiríkur Rögnvaldsson:

"Góð sambúð íslensku og tölvutækni er forsenda þess að við eigum áfram lifandi tungumál í tæknivæddum heimi. Nýi talgervillinn sem Blindrafélagið hefur látið gera er mikilvægt framlag til eflingar íslenskrar tungu og íslensks málsamfélags."
Lukasz Osowski, stjórnarformaður Ivona sagði að hjá Ivona væru menn mjög stoltir af því að hafa fengið tækifæri til að vinna með Blindrafélaginu að því að opna aðgang að hinni stafrænu upplýsingaveröld á töluðu íslensku máli. Það væri í anda stefnumörkunar félagsins að leggja sitt að mörkum til varðveislu lítilla tungumála.
Remus Mois, verkefnastjóri málfræðihluta verkefnisins hjá Ivona, sagði að hann talaði fyrir hönd starfsmanna þróunardeildar fyrirtækisins, þegar hann segði að smíði á íslensku talgervilsröddunum hafi verið eitt áhugaverðasta verkefni sem þau hafi fengist við. Ástæður þessa væru tvær. Í fyrst lagi væri íslenska fyrsta norðurgermanska málið sem þau tækjust á við og í því hefðu falist áskoranir, bæði fyrir mannskapinn og kjarnatæknina sem byggt væri á. Í öðru lagi hefðu þau verið svo heppinn að vinna með einstaklega hæfu fagfólki af Íslands hálfu, á öllum stigum verkefnisins, fagfólki sem hefði gert starf þeirra mun auðveldara.  
Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins og verkefnisstjóri: „Talgervill er nauðsynlegur þeim sem ekki geta lesið með hefðbundunum hætti vegna skerðingar. Á Íslandi eru þetta nokkur þúsund einstaklingar. Án talgervils er möguleikinn til mennta, atvinnu, aðgangs að upplýsingum og almennrar þátttöku í samfélaginu verulega takmarkaður fyrir þennan hóp. Tíminn mun leiða í ljós að sökum þess sveigjanleika sem er hluti af samstarfi Blindrafélagsins og Ivona, mun bylting eftir að eiga sér stað í aðgangi að upplýsingum á stafrænu formi og gáttir munu opnast fyrir einstaklinga sem fram til þessa hafa verið lokaðar. Eins er mikilvægt að sala á íslenska talgervlinum muni standa straum að áframhaldandi þróun hans.“

Um Ivona

Pólska fyrirtækið Ivona software hefur þróað talgervlatækni (Text to Speach Technology) sem hlotið hefur mörg alþjóðleg verðlaun og þjónar því hlutverki að ljá farsímum, tölvum og öðrum stafrænum samskipta- og tæknivörum rödd. Ivona-talgervlavörurnar hafa hlotið viðurkenningu sem markaðsleiðandi þegar kemur að nákvæmum og eðlilegum upplestri og þægilegri áheyrn. Vörur Ivona spanna breitt bil sérhæfðra talgervilslausna fyrir fyrirtæki, einstaklinga, síma og samskiptatæknivörur, farsíma og heimili, og nýjar lausnir eru í stöðugri þróun. Í samræmi við langtímastefnumörkun á sviði bætts aðgengis vinnur Ivona náið með öflugum samtökum sem starfa á sviði bætts aðgengis fyrir blint og sjónskert fólk, eins og bresku blindrasamtökin RNIB (Royal National Institute of the Blind People in the UK) og Daisy Consortium.

Kynningarmyndbönd:

Kynningamyndband yrir Ivona-textalesara má skoða á þessari síðu.
Kynning á Ivona-veflesaranum má skoða hér.

Ítarupplýsingar:

„Bætt lífsgæði – íslensk málrækt“ voru þær tvær meginstoðir sem verkefnið var reist á. Með því er vísað í hversu mikil áhrif vandaður talgervill hefur á lífsgæði blindra, sjónskertra, og annarra sem ekki geta lesið með hefðbundnum hætti og einnig hversu mikilvægur vandaður íslenskur talgervill er íslenskri málrækt.

Hvað er talgervill?

Talgervill er hugbúnaður sem hægt er að keyra á ýmis konar vélbúnaði, svo sem tölvum, fartölvum, símum, hraðbönkum, mp3-spilurum og fleiru og breytir texta á tölvutæku formi í upplestur. Gæði talgervla eru metin út frá því hversu góður upplesturinn er og hversu nálægt náttúrulegum upplestri hann kemst. Hafa ber í huga að lestur talgervils getur aldrei komið alfarið í stað mannsraddar en talgervlar nú á tímum ná að komast ótrúlega nálægt því.

Samstarfsaðilar

Fjölmargir aðilar komu að þessu verkefni með Blindrafélaginu, þeir eru helstir:

  • Þjónustu-og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga
  • Blindrabókasafnið
  • Blindravinafélag Íslands
  • Íslenskur orðasjóður við Háskólann í Leipzig
  • gervigreindarsetur Háskólans í Reykjavík
  • Lions á Íslandi
  • Máltæknisetur
  • Royal National Institude of Blind People RNIB), Bretlandi
  • Stofnun Árna Magnússonar
  • Velferðarráðuneytið
  • Menntamálaráðuneytið
  • Öryrkjabandalag Íslands.

Verndari verkefnisins er frú Vigdís Finnbogadóttir

Fyrir hverja

Tilvist vandaðs og framúrskarandi tæknilega vel gerðs íslensks talgervils, eins og nýi íslenski Ivona-talgervilinn er, mun hafa mikil og jákvæð áhrif á lífsgæði þeirra mörg þúsund einstaklinga sem ekki geta lesið með hefðbundnum hætti, hvort sem er vegna blindu, sjónskerðingar, lesblindu eða annarra fatlana. Verkefnið er jafnframt mjög mikilvægt málræktarverkefni vegna þess að talgervlar ráða því hvernig íslenska er lesin í tölvuheimum. Með tilkomu góðs íslensks talgervils er betur hægt að nýta íslenskun á ýmsum hugbúnaði sem notendur hafa orðið að keyra á ensku hingað til. Mikilvægi góðs íslensks talgervils er meðal þess sem fjallað er um í Íslenskri málstefnu, gefinni út af Menntamálaráðuneytinu árið 2009 (bls. 62)

Meginskilgreiningar

Verkefna- og stýrihópur var starfandi fyrir verkefnið frá upphafi. Stýrihópurinn undir stjórn Huldar Magnúsdóttur, forstjóra Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Þær meginskilgreiningar sem unnið var eftir þegar að framleiðandi var valinn voru:

  • Gæði – Að hlustunargæði yrðu eins og best þekkist í erlendum hágæðatalgervlum og upplesturinn yrði eins réttur og kostur væri á.
  • Notkunarsvið – Að talgervilinn geti unnið á fyrirfram skilgreindum stýrikerfum.
  • Leyfisgjaldafyrirkomulag og eignarréttur – Að talgervilinn verði þjóðareign og í vörslu Blindrafélagsins og þeir einstaklingar sem þurfa að nota talgervil og þær stofnanir sem sinna þjónustu við blinda, sjónskerta og aðra lesfatlaða fái talgervilinn endurgjaldslaust.
  • Áframhaldandi þróun - Að hægt verði að þróa talgervilinn áfram í samstarfi við aðila á Íslandi, svo sem eins og Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands.
  • Sveigjanleiki - Að hægt verði, í samstarfi við framleiðanda, að flytja talgervilinn yfir á ný tæki og stýrikerfi þegar þau ná útbreiðslu og almennum vinsældum, eða uppfylla áður óuppfylltar þarfir fatlaðra hvað varðar aðgengi að upplýsinga- og samskiptatækni.

Sérfræðingar verkefnisins

Helstu fræðilegu ráðgjafarnir í þessu verkefni voru: Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands og Jón Guðnason, doktor í rafmagnsverkfræði og sérfræðingur í talmerkjafræði við Háskólann í Reykjavík. Aðrir sérfræðingar voru: Hlynur Hreinsson og Birkir Rúnar Gunnarsson en báðir hafa starfað sem sérfræðingar í tölvuhjálpartækjum hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Birkir er auk þess tölvuforritari og notandi tölvuhjálpartækja fyrir blinda og sjónskerta.

Framleiðandi

Að undangengnu gæðamati og verðkönnun meðal allra helstu talgervilsframleiðenda í heiminum, og út frá þeim meginskilgreiningum sem settar voru fram fyrir nýjan íslenskan talgervil, var pólska fyrirtækið Ivona valið til að smíða talgervilinn. Bresku blindrasamtökin (RNIB) hafa átt mjög gott samstarf við þetta fyrirtæki. Fyrirtækið hefur einnig fengið mörg verðlaun fyrir talgervlana sína á sýningum á undanförnum árum. Frekari upplýsingar um Ivona-fyrirtækið, aðferðarfræði þess við talgervlasmíðina, verðlaun og viðurkenningar má finna á heimasíðu fyrirtækisins (www.ivona.com). Þar má einnig hlusta á þann mikla fjölda radda sem Ivona hefur framleitt.

Kostnaður og tímaáætlanir

Samningar voru undirritaðir í febrúar 2011. Prufu (beta) útgáfa talgervilsins var síðan kynnt á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember 2011. Talgervilinn var síðan að mestu tilbúinn í maí 2012. Nú í sumar hafa síðan staðið yfir prófanir.
Umsamin framleiðslukostnaður er 495 þúsund evrur. Heildarkostnaður í íslenskum krónum er áætlaður 85 milljónir króna.
Fjármögnun
Eftirtaldir komu að fjármögnun verkefnisins:

Blindrafélagið (ráðstöfun á erfðafjárgjöf)          25    milljónir
Blindravinafélagið                                               5    milljónir
Framkvæmdasjóður fatlaðra                             15    milljónir
Heilbrigðisráðuneytið                                           5    milljónir
Lions, Rauða fjöðrin landssöfnun                      19,3    milljónir
Menntamálaráðuneyti og Velferðarráðuneyti      5,5    milljónir
Öryrkjabandalag Íslands                                    10    milljónir
Samtals                                                              84,8    milljónir