Svo virðist sem Karl hafi byrjað að vinna sem sjálfboðaliði fyrir Blindrafélagið seinni hluta tíunda áratugar síðustu aldar en þá starfaði hann sem heimilishjálp fyrir einn íbúa í húsi Blindrafélagsins í Hamrahlíð 17. Starf hans við heimilishjálpina tengdist hinsvegar Blindrafélaginu ekkert.
Karl kom sér fljótlega í mjúkinn hjá félagsmönnum og var kosinn í nefndir á vegum félagsins kringum árið 2000 og sat í skemmtinefnd og tómstundanefnd félagsins meira og minna fram til ársins 2006 eða þar til Ragnar Bjarnason, tónlistarmaður hafði samband við framkvæmdastjóra félagsins og sagði honum frá ásökunum og alvarlegum misgjörðum sem tengdust Karli. Þessar upplýsingar komu starfsfólki og stjórnarmönnum félagsins gjörsamlega í opna skjöldu. Ákvörðun var tekin um að kanna meðal félagsmanna sem helst höfðu unnið með Karli hvort nokkuð grunsamlegt hefði gerst kringum hann. Í þeirri athugun var sérstaklega hugað að foreldrum blindra og sjónskertra barna. Ekkert kom fram sem vakti grunsemdir um að Karl hefði brotið gegn einhverjum börnum á vettvangi félagsins, en þess skal getið að Karl vann aldrei beint við ungmenna, barna- eða foreldrastarf Blindrafélagsins.
Í framhaldi af þessu var Karli Vigni Þorsteinssyni tilkynnt að nærveru hans í félagsstarfi Blindrafélagsins væri ekki lengur óskað.
Í ljósi nýrra upplýsinga sem fram hafa komið og í ljósi eðli þeirra afbrota sem Karl Vignir hefur viðurkennt að hafa framið á börnum, hefur stjórn Blindrafélagsins ákveðið að kanna nánar meðal foreldra og barna sem kynnu að hafa orðið á vegi Karls Vignis á vettvangi félagsins þann tíma sem hann var sjálfboðaliði á þess vegum, hvort hann hafi brotið gegn einhverjum börnum á þessum tíma. Komi í ljós ábendingar um að svo hafi verið mun lögreglu verða gert aðvart þar um.