Samið um ferðaþjónustu fyrir blinda  ísfirðinga

Blindrafélagið og Ísafjarðarbær hafa gert með sér samning um ferðaþjónustu fyrir lögblinda ísfirðinga. Samningurinn kveður á um að Ísafjarðabær greiðir tiltekinn ferðakostnað lögblindra einstaklinga sem eiga lögheimili í Ísafjarðarbæ. Blindrafélagið mun gera samninga við notendur ferðaþjónustunnar og Leigubíla Ísafjarðar sem munu sjá um að veita þjónustuna

.

Þjónustusvæði ferðaþjónustunnar er Ísafjarðabær. Það nýmæli  er þó í samningnum við Ísafjarðabæ að lögblindum Ísfirðingum, sem eiga erindi til Reykjavíkur, standa til boða 12 ferðir á ári á höfuðborgarsvæðinu, með Hreyfli svf, eða þeirri leigubílastöð sem Blindrafélagið er með samning við um akstur á höfuðborgarsvæðinu.

Leyfilegur hámarksfjöldi ferða hvers notanda á mánuði eru 12 ferðir til
einkaerinda, auk ferða til og frá vinnu, skóla, þjálfunar, heilsugæslu og hæfingar, þó aldrei fleiri ferðir en 60 alls á mánuði. Ein ferð er skilgreind sem ferð frá stað A til staðar B og skal Blindrafélagið setja nánari reglur um hámarkslengd ferða. Fari ferðafjöldi einstaks notanda umfram tilgreind mörk, skal Blindrafélagið innheimta allan kostnað við umframferðir af notanda.

Blindrafélagið innheimtir af notendum þá kostnaðarhlutdeild sem þeir skulu greiða fyrir hverja ferð, innan þjónustusvæðis og þjónustutíma, nú kr. 350.- á hvern notanda, hvort sem einn eða fleiri eru saman. Kostnaðarhlutdeild notanda skal fylgja staðgreiðslufargjaldi fullorðinna í strætisvagna hjá Strætisvögnum Ísafjarðarbæjar sem nú er kr. 350.-

Kristinn Halldór Einarsson formaður Blindrafélagsins segir að skoðanakannanir meðal félagsmanna Blindrafélagsins hafi sýnt fram á að góð ferðaþjónusta sé mikilvægasta þjónustuúrræði í huga félagsmanna. Meðal annars í því ljósi er þessi ferðaþjónustusamningur gífurlega mikilvæg réttarbót fyrir lögblinda ísfirðinga. Sérstaklega sé mikilvægt að sveitarfélag á landsbyggðinni skuli viðurkenna skyldur sínar til að mæta ferðaþjónustuþörf á höfuðborgarsvæðinu, en þangað þurfa lögblindir einstaklingar búsettir út á landi, oft að sækja nauðsynlega þjónustu. Þau ferðaþjónustuúrræði sem Blindrafélagið hefur barist fyrir eru að ryðja sér til rúms i æ fleiri sveitarfélögum sem gera sér orðið grein fyrir lagalegri skyldu sinni í þessum efnum. Ferðaþjónusta blindra er úrræði sem sýnt hefur sig vera valkostur sem bíður upp á mikinn sveigjanleika í þjónustu og hagkvæmni fyrir sveitarfélögin.