Úttekt á hljóðleiðsagnarkerfi í Strætó

Sem aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins var ég beðin um að gera aðgengisúttekt á Strætó í samstarfi við eftrilitsmann fyrirtækisins.

Eins og flestum er kunnugt  tók Strætó upp leiðarkerfi fyrir nokkrum árum síðan og hefur það verið mikið þróunarverkefni og verið mjög umdeilt meðal farþega og bílstjóra.

Það fyrsta sem ber að nefna er að gæði kerfisins eru mismunandi miðað við vagna. Hljóðkerfin eru innbyggð í vagnana og þar afleiðandi mismunandi eftir framleiðindum. Þannig getur verið mikill gæða munur á milli vagna. Þar að auki hafa umhverfishljóð töluvert að segja, og allt eftir hraða vagnsins getur hljóðið breyst mikið. Ef vagnin er fullur af fólki dempar það sjálfkrafa hljóðið á meðan það glymur hátt í tómum vagni. Ef hljóðkerfið er stillt þannig að það heyrist vel og greinilega í því í verstu aðstæðum, þá er það ærandi í bestu aðstæðu. Þar sem að vagnarnir ferðast flestir í gegnum allar mögulegar aðstæður, á mismunandi hraða og í öllum veðrum er það mikið verk að finna stillingu sem passar í öllum veðrum.

Bílstjórar hafa kvartað undan áreiti frá kerfinu og í sumum tilfellum sýndi það sig að sá hátalari sem mest heyrðist í var staðsettur ofan í bílstjóranum.

Kerfið er GPS stýrt og það eru hnökrar á því, stundum sleppir tölvan úr eða tilkynnr of seint eða of snemma. Hvort þetta er vandamál í tölvubúnaði vagnsins, hugbúnaði eða hnökkrar í gps sambandi er erfitt að segja en það gerir það að verkum að blindir og sjónskertir farþegar geta ekki treyst því algjörlega og mega búast við að það bregðist.

Í þeim vögnum sem við skoðuðum og sem ég hef skoðað sjálf var kerfið oftast of lágt still. Suma vagna er hægt að stilla á ferð og þannig var hægt að leiðrétta það. En bílstjórinn getur ekki sjálfur stillt kerfið heldur þarf eftirlitsmann með sérstakan lykil til þess.

Raunin virðist vera sú að þeir bílstjórar sem finna fyrir mestu áreiti frá kerfinu grípa til mótvægisaðgerða með að hafa hátt stillt útvarp. Það getur gert það enn erfiðar fyrir farþega að greina tilkynningar frá kerfinu, sérstaklega fyrir þá sem eiga erfitt með heyrn.

Niðurstaðan er sú að kerfið eins og það er í dag hentar illa fyrir blinda og sjónskerta. Stærsti vandinn er óáreiðanleiki sem gerir að verkum að farþegi getur ekki treyst á að leiðarkerfið sé rétt stillt vagninum og það er þannig hips um haps hvort hann/hún komist hjálparlaust á áfangastað. Stærsti vandinn eru sjálfir bílarnir og takmarkanir þeirra.

Ég hvet Strætó til þess að hafa leiðarkerfið ofarlega í mati á innkaupum á nýjum bílum og ráðfæra sig við aðrar borgir sem glíma við svipaðar aðstæður og við hér.

Þar til bílakosturinn er komin í lag þá væri gott að reyna að samræma hljóðstillingar og jafnvel aftengja hátalar sem eru beint yfir bílstjóra.

Eins og er, er best að vera staðsettur í miðjum vagni, þessu þarf að koma til skila til farþega.

Þar sem niðurstaðan er sú að blindir og sjónskertir muni eiga í miklum erfiðleikum með að nota Strætó hjálparlaust legg ég ennfremur til að komið verði á fræðslu fyrir bílstjóra um þá farþega sem bera hvítan staf eða blátt kort.

Samhliða þarf að fræða blinda og sjónskerta farþega um þá aðstoð og þjónustu sem er í boði hjá bílstjórum.

Rósa María Hjörvar
Aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins