Skuggi er íslenskur hundur af Labrador retriver kyni og þjálfaður á Ísafirði af Auði Björnsdóttur, hundaþjálfara. Skuggi var afhentur Önnu Kristínu Gunnarsdóttur og mun verða búsettur í Reykjavík. Þetta er í fyrsta sinn sem Anna Kristín fær leiðsöguhund og telur hún að Skuggi muni veita henni bæði stuðning og sjálfstæði og gera henni kleift að sinna sínum daglegu og félagslegu þörfum. Undanfarnar vikur hafa þau Anna Kristín og Skuggi fengið að kynnast hvort öðru en hann hefur verið í þjálfun með Önnu Kristínu undir leiðsögn starfsmanna Miðstöðvarinnar.
Anna Kristín segist hafa upplifað mikið frelsi við að fá leiðsöguhund. Hundurinn fylgi henni hvert sem er, og eftir að hún fékk hann fari hún sem dæmi í fyrsta skiptið ein í strætó til vinnu. Einnig hreyfir hún sig miklu meira en áður og finnur fyrir meira öryggi. Önnu Kristínu finnst hún geta treyst á að hundurinn gæti hennar og auk þess sé Skuggi mjög góður félagsskapur.
Blindrafélagið hefur staðið dyggilega á bak við verkefnið með fjáröflun, meðal annars með sölu dagatala, en myndir í dagatali félagsins hafa verið af núverandi leiðsöguhundum, unghundum í þjálfun og hvolpum sem keyptir hafa verið í verkefnið.
Einnig hefur Lions hreyfingin stutt við verkefnið með fjáröflun nú síðast með söfnunarfé Rauðu fjaðrarinnar, landssöfnunar Lions, sem fram fór í apríl 2015.
Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga hefur í samvinnu við Blindrafélagið unnið að þróunarverkefni með leiðsöguhunda, sem felst í að fjölga leiðsöguhundum á Íslandi. Skuggi er tíundi leiðsöguhundurinn sem tekin er í notkun á Íslandi síðan árið 2008. Tveimur íslenskum leiðsöguhundum hefur áður verið úthlutað en annars hafa hundarnir komið hingað til lands frá Noregi og Svíþjóð. Verkefnið hefur gengið vel og hefur hundunum verið vel tekið í samfélaginu. Almennt virðist fólk þekkja rétt leiðsöguhunda til að fara með notendum sínum á alla þá staði sem opnir eru almenningi.