Á „Stefnumóti“ Blindrafélagsins, miðvikudaginn 25. maí, var sett á dagskrá sú vinna sem stjórn var falin á aðalfundi í mars, að huga að breytingum á lögum og verkferlum og gerð siðareglna.
Málin voru rædd í litlum hópum út frá spurningunum „Hver erum við og hvað gerum við?“ og „Hverju eiga siðareglur að breyta?“
Skilaboð þátttakenda voru skýr um það að Blindrafélagið er hagsmuna- og mannréttindasamtök fyrir blinda og sjónskerta, um allt land. Rætt var um baráttumál og þjónustu og komu fram ýmsar hugmyndir um hvernig mætti gera enn betur. Einhugur var um setningu siðareglna, en líka bent á að einnig þurfi að móta aðgerða- og viðbragðsáætlanir.
Á stefnumótinu ríkti jákvæður og uppbyggilegur andi og þar endurspeglaðist væntumþykja og virðing gagnvart Blindrafélaginu, sem þátttakendur telja mikilvægt að standa vörð um.
Samantekt frá Sigurborgu hjá Ildi ehf. um fyrstu niðurstöður verður birt í næstu tölublaði af Völdum greinum.
Stjórn mun síðar fara yfir heildarniðurstöðurnar með ráðgjafanum og taka ákvörðun um næstu skref í því umbreytingaferli sem nú er hafið og verður málum fram haldið í haust.