Á fjölmennum félagsfundi Blindrafélagsins miðvikudaginn 2 mars var eftirfarandi ályktunartillaga frá stjórn félagsins samþykkt samhljóða.
Mál er að deilum í tengslum við vantraust stjórnar Blindrafélagsins á formann félagsins linni. Því miður hafa félagsmenn neyðst til að setja sig inn í efnisatriði þessara deilna og taka afstöðu til þeirra. Það er einnig miður að deilurnar skuli ítrekað hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og hafa hugsanlega skaðað ímynd Blindrafélagsins. Formaður félagsins hefur nú beðið félagsmenn afsökunar á mistökum sínum og stjórnin hefur tekið undir með sannleiksnefndinni um að margt hefði mátt betur fara í vinnubrögðum hennar og samskiptum við formanninn og biðst hún afsökunar á því.
Félagsfundurinn telur það ekki þjóna hagsmunum Blindrafélagsins að útkljá deilurnar á þessum fundi með því að taka afstöðu með öðrum hvorum deiluaðilanna. Sé einhvers konar uppgjör þeirra í millum óhjákvæmilegt er aðalfundurinn sem framundan er og kosning á honum til næstu stjórnar eðlilegasti vettvangur þess. Þess vegna samþykkir fundurinn að lýsa yfir vonbrigðum sínum með atburðarás undanfarinna mánuða og lætur í ljós von um að aðalfundurinn 19. mars nk. geti orðið upphaf nýrrar uppbyggingar trausts og samstöðu innan félagsins.
Stjórn Blindrafélagsins