Ný Víðsjá komin út

Meðal efnis er:

Hljóðlaus ógn

Blindir og sjónskertir vegfarendur treysta alfarið á hljóðmynd þegar þeir fara yfir götur og stræti. Framkoma hljóðlausra rafmagnsbíla og annarra tækja á markaði ógnar því ferðafrelsi og öryggi blindra og sjónskertra og gæti orðið til þess að það yrðu alvarleg slys.

Evrópusambandið hefur nýverið sett reglur um takmörkun hljóðmengunar til þess að minnka áreiti af umferð sem sagt er að valdi miklum heilbrigðisvanda. Í því starfi hefur verið tekið tillit til þarfa blindra og sjónskertra og er því talað um lágmarkshljóð, til þess að tryggja að eitthvað heyrist í tækjunum.

Sjónskertir bílstjórar?

Það er ekki heimilt að keyra bíl þegar sjón er komin niður fyrir 50% en þrátt fyrir það er engin akstursþjónusta í boði fyrir þennan hóp. Fjölskyldan, heilbrigðisstarfsmenn og opinberir aðilar veigra sér við að taka á málinu og því er niðurstaðan sú að sumir halda áfram að keyra bíl þrátt fyrir mikla sjónskerðingu.

Hjartatónar

Hlynur Þór Agnarsson fór fyrir hönd Íslands í söngvakeppnina Sounds from the Heart í Kraká í Póllandi. Keppnin er haldin á tveggja ára fresti af alþjóðahreyfingu Lions. Þetta er í annað sinn sem keppnin er haldin, árið 2013 tók Haraldur G. Hjálmarsson þátt fyrir hönd Íslands, lenti í 4. sæti og hlaut viðurkenningu frá borgarstjóranum í Kraká. En velgengni Íslands í þessari keppni var ekki þar með lokið því að Hlynur Þór Agnarsson gat fagnað silfurverðlaunum í keppninni 2015. Víðsjá spjallaði við Hlyn um keppnina, tónlistina og framtíðarplönin.

Um Víðsjá

Viðsjá skipar lykilhlutverk í fjáröflun Blindrafélagsins en félagið þarf að afla 90% af tekjum sínum með eigin fjáröflun til að standa undir nauðsynlegri starfsemi og þjónustu. Víðsjá kemur út tvisvar á ári, að vori og að hausti. Upplag blaðsins er 18.000 eintök. Því er dreift til félagsmanna, styrktarfélaga, bakhjarla og annarra sem stutt hafa félagið á síðastliðnum árum. Auk þess er blaðið sent til ýmissa félaga, fyrirtækja og opinberra aðila með áherslu á þá sem tengjast heilbrigðisþjónustu.

 Samkvæmt könnun Capacent sem gerð var fyrir hönd Blindrafélagsins þá lásu það um 74% þeirra sem voru á póstlista Blindrafélagsins sem gerir það að verkum að um 15 þúsund manns skoðuðu blaðið. Af lesendum voru 82% ánægðir með efnistök blaðsins sem sýnir að ritstjórnarstefna blaðsins höfðar vel til markhópsins. 

Tilgangur Víðsjár er að stuðla að sem viðtækustum skilningi og stuðningi, meðal félagsmanna og almennings á: 

Lífsgæðum og mannréttindum blinds og sjónskerts fólks á Íslandi. 

Nýjustu rannsóknum og meðferðartilraunum á sviði augnlækninga. 

Verkefnum sem eru á vettvangi Blindrafélagsins eða studd af félaginu og heimasíðu félagins, blind.is. 

Stuðningur hins opinbera við starf Blindrafélagsins hefur dregist verulega saman á síðustu árum sem leiðir til þess að félagið þarf enn frekar að leita til almennings í landinu eftir stuðningi.

Nýjasta verkefni Blindrafélagsins er Vefvarp Blindrafélagsins en það er nettengd lestölva sem les upphátt í rauntíma skýringatexta í sjónvarpi, Morgunblaðið, bækur frá Hljóðbókasafni Íslands og margt fleira. Vefvarpið notar talgervilinn Karl og Dóru við upplesturinn. Ekki þarf neina tölvukunnáttu til að geta nýtt tækið. Þessi tækni hefur valdið straumhvörfum í upplýsingamiðlun til blindra og sjónskertra eldri borgara.

Á þessu ári eru 77 ár frá stofnun Blindrafélagsins. Í allan þann tíma hefur félagið barist af alefli fyrir réttindum blindra og sjónskertra og í dag er félagið í fararbroddi í jafnréttisbaráttu fatlaðra á Íslandi.