Margir hafa haft samband við stjórnarmenn og beðið um að tillagan sem liggur fyrir félagsfundinum sem boðaður hefur verið 2. mars verði birt. Jafnframt hefur eindregið verið óskað eftir því hverjir báðu um þennan fund og eru flutningsmenn tillögunnar. Enda þótt stjórnin hafi ekki áformað að birta tillöguna í heild sinni né nöfn flutningsmanna hennar er sjálfsagt að verða við þessum óskum. Enda þótt stjórnin sé í öllum aðalatriðum ósammála þeim atriðum sem nefnd eru í rökstuðningi fyrir þessari hvatningu til stjórnar hyggst stjórnin geyma sér efnislega umræðu um málið þar til á félagsfundinum. Erindið sem barst til stjórnar er svohljóðandi:
Reykjavík, 19. febrúar 2016
Við undirritaðir félagsmenn í Blindrafélaginu förum fram á að haldinn verði almennur félagsfundur í félaginu hið fyrsta, sbr. 6. grein laga Blindrafélagsins, en þar segir að stjórn skuli boða til og halda fundinn innan hálfs mánaðar frá því að ósk berst. Ástæða fundarbeiðninnar er sú, að við teljum að stjórn og félagsmenn hafi fengið nægjanlegt andrými til að taka afstöðu til skýrslu Sannleiksnefndar Blindrafélagsins, enda teljum við það mjög óeðlilegt að stjórn félagsins telji sig þurfa sérstakt "andrými" til að fjalla um eigin misgjörðir eftir að ljóst er hún hafi ekki gefið Bergvini Oddssyni, formanni svigrúm þegar mjög alvarlegar ásakanir komu fram á hendur honum.
Fundarefni verði umræður og atkvæðagreiðsla um eftirfarandi tillögu:
Félagsfundur Blindrafélagsins hvetur stjórn félagsins eindregið til þess að draga vantraustsyfirlýsingu sína á Bergvin Oddsson, formann Blindrafélagsins til baka, eigi síðar en 10 dögum fyrir aðalfund Blindrafélagsins, eða 9. mars 2016, þar sem vantrauststillagan snýr að viðskiptum Bergvins við varastjórnarmanninn Patrek Andrés Axelsson og meintan trúnaðarbrest milli formanns og stjórnar vegna viðskiptanna. Í skýrslu Sannleiksnefndar Blindrafélagsins er sagt, að það sé alls ekki augljóst, að formaður hafi rofið trúnað við stjórn Blindrafélagsins og að stjórnin hafi farið á stjórnarfundinn 22. september 2015 með takmarkaðar upplýsingar og hafi farið offari með framgöngu sinni gagnvart Bergvini, og virt andmælarétt hans að vettugi. Orðalag vantrauststillögunnar er harkalegt að mati Sannleiksnefndarinnar og að ekki sé hægt að fallast á að Bergvin hafi vélað Patrek til viðskipta, líkt og stjórn Blindrafélagsins ályktaði á umræddum stjórnarfundi. Enda telur Sannleiksnefndin að stjórnarhættir Bergvins og vantrauststillagan séu sér aðskilin mál, sem sést best á því að í vantrauststillögu stjórnar er hvergi talað um stjórnarhætti formanns.
Þorsteinn Guðmundsson
Vilhjálmur H. Gíslason
Valdimar Sverrisson
Sveinn Lúðvík Björnsson
Sigurður Ármann Sigurjónsson
Sigtryggur R. Eyþórsson
Sigríður S. Jónsdóttir
Páll E. Jónsson
Magnús Jóel Jónsson
Kristrún Skúladóttir
K. María Jónsdóttir
Guðrún Pálsdóttir
Guðrún Bjarnadóttir
Friðgeir Þráinn Jóhannesson
Einar Haraldsson