Lions fær Samfélagslampa Blindrafélagsins árið 2011


Laugardaginn 15 október , á degi Hvíta stafsins, afhenti forseti Íslands Lions á Íslandi, Samfélagslampa Blindrafélagsins árið 2011.

Tilgangurinn með veitingu Samfélagslampans er vekja athygli á fyrirtækjum, stofnunum og/eða tilteknum aðgerðum eða verkefnum, sem með einum eða öðrum hætti hafa stuðlað að auknu sjálfstæði blindra og sjónskertra einstaklinga.

Samfélagslampi Blindrafélagsins er einstakur gripur, handsmíðaður af  Sigmari Ó Maríussyni, gullsmíðameistara. Um er að ræða upphleypta lágmynd úr silfri sem sýnir lampann úr merki Blindrafélagsins. Lampinn er festur á sagaða og slípaða steinflís úr skagfirsku blágrýti. Steinflísin stendur á tveimur járnpinnum á blágrýtisfæti. Á fætinum er síðan silfurskjöldur með áletrun um verkið og tilefni þess.

Áletrunin á Samfélagslampanum sem veittur var Lions á Íslandi er:

Stuðningur til sjálfstæðis!
Samfélagslampi Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi veittur Lions á Íslandi árið 2011 fyrir mikilvægan stuðning við leiðsöguhunda- og talgervilsverkefni Blindrafélagsins.


Samfl2011

Á þessari mynd afhendir forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, Kristni Hannessyni, fyrrverandi fjölumdæmisstjóra Lions, samfélagslampa Blindrafélagsins árið 2011. Í bakgrunni eru Ólafur Haraldsson framkvæmdastjóri Blindrafélagsins til vinstri og Kristinn Halldór Einarsson formaður félagsins.

 


Opið hús að Hamrahlíð 17

Í tilefni af degi Hvíta stafsins, sem er alþjóðlegur dagur til að vekja athygli á málefnum blindra og sjónskertra, var opið hús í Hamrahlíð 17. Gafst gestum kostur á aða kynna sér fjölbreytta starfsemi í húsinu, svo sem eins og starfsemi Blindravinnustofunnar, sem er 70 ára um þessar mundir, smáhjálpartæki í hjálpartækjaverslun Blindrafélagsins, starfsemi sjóntækjafræðinga, augnlækna og Þjónustu og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Einnig var hægt að heilsa upp á leiðsöguhunda fyrri blinda og leitarhunda lögreglu og hjálparsveita. Forseti Ísland kynnti sér þessa fjölbreyttu starfsemi ásamt fjölmörgum gstum, en´mæting var einstaklega góð og voru mörg hundruð manns sem mættu.