Fundargerð 18. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2019 – 2020, haldinn miðvikudaginn 27. maí kl. 16:15.
Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varaformaður, Kaisu Hynninen (KH) ritari, Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ) gjaldkeri, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður, tekur sæti HÞA sem aðalmaður, Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) varamaður, Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.
Forföll: Hlynur Þór Agnarsson (HÞA).
1. Fundarsetning.
SUH setti fundinn og bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt.
2. Afgreiðsla fundargerðar.
Fundargerð 17. fundar, sem send var stjórnarmönnum strax eftir fundinn og einnig fyrir þennan fund, var samþykkt samhljóða.
3. Lýst eftir öðrum málum.
Engin önnur mál boðuð.
4. Skýrslur, bréf og erindi.
SUH vakti athygli á að fyrir fundinum lægi fundargerð frá seinasta NSK fundi og bréf til félagsmálaráðherra og Reykjavíkurborgar, sjá frekar í skýrslu formanns.
Í skýrslu formanns var fjallað um:
- Málefni Þjónustu og Þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu.
- Rafskútuleigur (rafhlaupahjól).
- Úthlutun úr sjóðnum Blind börn á Íslandi.
- Leiðsöguhundaverkefnið.
- Mikilvægar dagsetningar.
Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:
- Ársreikningar Blindrafélagsins 2019.
- Endurfjármögnun lána.
- Fjáraflanir.
- Húsnæðismál.
- Ferðaþjónusta.
- Covid-19 og skrifstofan.
- Mál hjá lögmönnum Blindrafélagsins.
5. Ársreikningar Blindrafélagsins 2019
Stjórnamenn höfðu haft drög að ársreikningum til skoðunar frá seinasta stjórnarfundi. Í veikindaforföllum Guðnýjar Helgu Guðmundsdóttur voru þær Hjördís Ólafsdóttir endurskoðandi og Erla Kristinsdóttir frá KPMG mættar á fundinn og fóru þær yfir allan ársreikninginn með stjórninni. Megin tölur í ársreikningnum eru þær sömu og kynntar voru á seinasta fundi.
Rekstrartekjur félagsins eru 245,4 milljónir króna sem er 4,3% hærri tekjur en 2019. Rekstrargjöld félagsins eru 234,6 milljónir króna sem er 12% hærri gjöld en 2019. Rekstrarafkoma fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld er jákvæð um 10,8 milljónir króna. Að viðbættum afskriftum og fjármagnsgjöldum er afkoman hins vegar neikvæð um 6,3 milljónir króna.
Áritun KPMG á ársreikninginn er án fyrirvara og segir í álitun að KPMG álíti að ársreikningurinn gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu félagsins 31.12.2019, afkomu þess og breytingu á handbæru fé á árinu 2019 í samræmi við lög um ársreikninga.
Reikningarnir voru samþykktir samhljóða af öllum aðal- og varamönnum stjórnar og undirritaðir af aðalmönnum í stjórn og framkvæmdastjóra.
6. Hamrahlíð 17.
SUH sagði frá bréfi til Félagsmálaráðherra þar sem kynnt eru áform um hækkun Hamrahlíðar 17 eru kynnt og óskað eftir fundi til að kynna hugmyndir um að ÞÞM taki hluta eða alla hæðina á leigu.
KHE gerði grein fyrir grófu kostnaðarmati á framkvæmdinni hleypur á 400– 500 þúsund krónum á fm. eða 200 - 250 milljónum króna.
Ef framkvæmdirnar myndu kosta 200 milljónir króna og að fullu fjármögnuð með láni til 20 -25 ára á ca 3% vöxtum, þá þyrfti leiguverð að vera um 3.000 kr. á fm. til að skila um 3% ávöxtun á ári til félagsins.
Stjórn samþykkti einróma að setja af stað hönnunarvinnu við hækkunina og að ráðast í viðhaldsverkefnin sem að kynnt voru í skýrslu framkvæmdastjóra. Verkefnin verði fjármögnuð af verkefnasjóð. Í tengslum við fjármögnun á hækkun Hamrahlíð 17 og í tengslum við skuldbreytingu á langtímalánum félagsins þá verði gert ráð fyrir að verkefnasjóður fái greiddan til baka hluta þess viðhaldskostnaðar sem að sjóðurinn hefur fjármagnað.
Framkvæmdastjóri mun kynna slíka útfærslu fyrir stjórn þegar þar að kemur.
7. Starfið framundan.
SUH gerði grein fyrir því að sökum hraðra afléttinga sóttvarna þá hefði sá möguleiki opnast að halda aðalfund Blindrafélagsins í lok júní. Það þýddi að boða þyrfti fundinn í þessari viku. Afstaða stjórnar var að standa við fyrri ákvörðun um að halda fundinn í september.
8. Önnur mál.
Engin önnur mál.
Fundi slitið kl. 18:25.
Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.