Fundargerð 15. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2019 – 2020, haldinn miðvikudaginn 11. mars kl. 16:15 að Hamrahlíð 17.
Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varaformaður, Kaisu Hynninen (KH) ritari, Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ) gjaldkeri, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður, tekur sæti HÞA sem aðalmaður, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) varamaður, Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.
Forföll: Hlynur Þór Agnarsson (HÞA), Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður
1. Fundarsetning
SUH setti fundinn og bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt.
Önnur mál: Engin boðuð.
2. Afgreiðsla fundargerðar.
Fundargerð 14. fundar, sem send var stjórnarmönnum strax eftir fundinn og einnig fyrir þennan fund, var samþykkt samhljóða.
3. Skýrslur bréf og erindi.
Erindi frá 67+ hópnum sem að felur í sér hvatningu til að flytja inn og koma á hjálpartækjalista ÞÞM, ísraelska OrCam hjálpartækinu, sem kynnt var félagsmönnum á sérstaki kynningu í desember síðastliðinn að frumkvæði félagsins og hvatningu til að sækjast eftir að yfirtaka umboð fyrir Index punktaletursprentarann sem Örtækni er með umboð fyrir.
KHE gerði grein fyrir að tilboðið sem að OrCam hefur gert Blindrafélaginu um að smíða íslenskan talgervil hljóði upp á að Blindrafélagið greiði fyrirfram 450.000 evrur (63 mkr) félaginu standi svo til boða að kaupa OrCam tæki með 30% afslætti eða á um 350 þkr. Til að ná upp í kostnað þyrfti að selja um og yfir 400 tæki, þar sem hvert tæki myndi kosta í smásölu um 500 þkr. + vsk.
Samþykkt var að SUH svaraði erindinu og gerði grein fyrir þeirri afstöðu stjórnar Blindrafélagsins að kostnaðurinn væri of mikill til að réttlætanlegt sé að ráðast í OrCam verkefnið.
SUH lagði til að EKÞ, KHE og Baldri verði falið að skoði punktaletursmál, umboð og þjónustu og skila tillögu fyrir næsta stjórnafund. Var tillagan samþykkt samhljóða.
Í skýrslu formanns var fjallað um:
- COVID19 veiruna.
- Fund í samráðsvettvangi norrænu Blindrasamtakanna.
- Stuðningsnet sjúklingasamtakanna.
- Fund með Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.
- Félagsfundinn 19 febrúar.
- Hádegisspjallið 20 febrúar.
- Skuggaskýrslu vegna SSRF.
- Fyrirspurn um Blindrasafn sbr. safn í Pólland.
- Stefnumótunarskýrsla Blindrafélagsins 2020.
- Mikilvægar dagsetningar.
Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:
- Undirbúning fyrir aðalfund Blindrafélagsins.
- Fjáraflanir.
- Húsnæðismál.
- Ferðaþjónustu Blindrafélagsins í Hafnarfirði.
- Umsögn um leigubílafrumvarpið.
- Leiðsöguhundaverkefnið.
- Corona veiruna.
- Undirbúning fyrir RIWC 2020
4. Inntaka nýrra félaga.
Engar nýjar umsóknir lágu fyrir.
5. Stefnumótun Blindrafélagsins.
SUH lagði fram til staðfestingar uppfærða stefnumótun Blindrafélagsins sem send hafði verið stjórnarmönnum fyrir fundinn. Var stefnumótunin staðfest af stjórn og afgreidd til birtingar á miðlum félagsins.
6. COVID-19.
Félagsstarfið: Í samræmi við ábendingar frá Landlækni samþykkti stjórn félagsins að leggja af Opið hús um ótilgreindan tíma. Skemmtinefnd, prjónaklúbburinn og bókmenntaklúbburinn munu jafnframt fresta fyrirhuguðum viðburðum á sínum vegum um ótilgreindan tíma.
Aðalfundur Blindrafélagsins: Miðað við að aðalfundur Blindrafélagsins verði haldinn 9. maí, eins og starfsáætlun gerir ráð fyrir, þá þarf ákvörðun að liggja fyrir fjórum vikum fyrir aðalfundardagsetningu, eða 18 apríl, þar sem boða þarf aðalfund með 4ra vikna fyrirvara. Ákveðið var að bíða með að leggja mat á hvort að þörf kunni að verða á að fresta aðalfundi félagsins.
RIWC 2020 og NOK 2020: Undirbúningsnefndir ráðstefnanna meta það svo að tvísýnt sé orðið um hvort að skynsamlegt sé að halda ráðstefnurnar á áætluðum tíma vegna Corona veirunnar. Á fundi með fulltrúum Senu og NOK var ákveðið að framlengja snemm (early bird) skráningafrestinn til 25 mars. Þann 27 mars verði síðan farið yfir málin og í framhaldi ákvörðun tekin um hvort að ráðstefnan verði haldin á áætluðum tíma eða hvort henni verði frestað eða hreinlega slegin af. Til að draga úr kostnaði ef breytingar verða á dagsetningum, eða hætt við ráðstefnuna, er mikilvægt að sú ákvörðun verði tekin 60 dögum fyrir áætlað ráðstefnuhald.
Við mat á þeim valkostum sem að eru í stöðunni er mikilvægt að hafa í huga að NOK ráðstefnan er læknaráðstefna og það eru auknar skyldur sem að hvíla á heilbrigðisstarfsfólki varðandi þátttöku í viðburðum sem að kunna að hafa í för með sér smithættu sem að ógnað getur heilsu fólks. Líklegustu sviðsmyndir sem að liggja fyrir okkur núna eru:
a) Ráðstefnan verður haldi á áætluðum tíma.
Merki er um að dregið gæti töluvert úr aðsókn, sérstaklega NOK megin.
Sama óvissa með stöðuna á vírusnum.
Enginn viðbótarkostnaður.
b) Ráðstefnan verði færð til innan ársins.
Ekkert gjald fellur til af hálfu Hörpu.
Mest öll vinna nýtist.
Töluvert brottfall þátttakenda vegna þess að væntanlegir ráðstefnugestir verða ekki lausir í haust þar sem fyrirvarinn yrði stuttur.
Enn gæti verið töluverð óvissa og smit útbreytt.
c) Ráðstefnan færð yfir á næsta ár 2021.
Greiða þarf 50% af salarleigunni sem verður síðan að 25% inneign fyrir 2021.
Vonir ættu að geta staðið til góða mætingu.
Óvissan um stöðu vírusinn líklega að mestu úr myndinni.
Viðbótarkostnaður ca. 3 mkr.
d) Hætt við ráðstefnuna: Ef ráðstefnan verður blásin af ráðstefnuhöldurum þarf að greiða Hörpu:
Ef fleiri en 61 dagur er í ráðstefnuna þá mun kostnaður verða um 10 mkr.
Ef 31-60 dagar eru fram að áætluðum ráðstefnutíma mun kostnaður verða um 15 mkr.
Ef 30 dagar eða minna þá mun kostnaður verða 20 mkr+
Samtals hafa 107 skráð sig á RIWC2020 og um 250 hafa skrá sig á NOK. Frestur til að skrá sig á lægri ráðstefnugjaldi (early bird) hefur verið framlengd til 25 mars.
Símafundur verður í stjórn RI föstudaginn 13. mars og þar mun KHE gera grein fyrir þeim sviðsmyndum sem að verið er að vinna með af okkar hálfu.
7. Leiðsöguhundaverkefnið.
Fyrir fundinum liggur erindi frá ÞÞM um kaup á þremur leiðsöguhundum á þessu ári og áætlun til næstu tíu ára. Erindið var sent stjórnarmönnum fyrir fundinn.
Stjórn samþykkti að tillögu SUH að stefna að því að fjármagna allt að þrjá hunda á þessu ári. Einn í vor og tvo jafnvel haust.
8. Húsnæðismál – Hækkun á Hamrahlíð 17.
Tillögu um að bæta við einni hæð á Hamrahlíð 17 hefur verið samþykkt af skipulagsyfirvöldum borgarinnar. Til stendur að bjóða ÞÞM að koma að hönnun hæðarinnar með það í huga að Miðstöðin taki húsnæðið á leigu. Stjórn samþykkti að hefja hönnunarferlið og kalla eftir kostnaðaráætlun á hönnun hæðarinnar frá arkitektastofunni sem hefur verið að vinna málið.
9. Önnur mál.
Engin önnur mál
Fundi slitið kl. 18:25.
Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.