15 október - Dagur Hvíta stafsins
Í tilefni af degi HVÍTA STAFSINS, laugardaginn 15. október næstkomandi, verður opið hús í Hamrahlíð 17, í Húsi Blindrafélagsins. Húsið verður opið almenningi milli kl. 14:00 og 16:00. Meðal viðburða er að rétt fyrir kl. 14:00 mun forseti Íslands afhenda Samfélagslampa Blindrafélagsins, sem nú verður afhentur í fjórða sinn. Í þetta sinn er lampinn veitur Lions á Íslandi fyrir öflugan stuðning við leiðsöguhunda- og talgervlaverkefni Blindrafélagsins.
Samfélagslampi Blindrafélagsins, er einstakur gripur, handsmíðaður af Sigmari Ó Maríussyni, gullsmíðameistara. Um er að ræða upphleypta lágmynd úr silfri sem sýnir lampann úr merki Blindrafélagsins. Lampinn er festur á sagaða og slípaða steinflís úr skagfirsku blágrýti. Steinflísin stendur á tveimur járnpinnum á blágrýtisfæti. Á fætinum er síðan silfurskjöldur með áletrun um verkið og tilefni þess. Áletrunin á lampanum sem veittur er Lions er:
"Stuðningur til sjálfstæðis!
Samfélagslampi Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi veittur Lions á Íslandi árið 2011 fyrir mikilvægan stuðning á undanförnum árum við leiðsöguhunda- og talgervilsverkefni Blindrafélagsins sem leiða til aukins sjálfstæðis og bætts lífs fjölmargra blindra og sjónskertra einstaklinga."
Opið hús kynning á starfseminni í húsi Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17
Sú fjölbreytta starfsemi sem fram fer í húsi Blindrafélagsins, að Hamrahlíð, verður til sýnis á degi Hvíta stafsins, laugardaginn 15 október kfrá kl 14:00 - 16:00. Gestum mun gefast kostur á að kynnast tarfseminni sem fram fer í húsinu. Má þar nefna: Hjálpartækjaverslun Blindrafélagsins, starfsemi Blindravinnustofunnar, sem er 70 ára um þesar mundir, starfsemi Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, endurhæfingaríbúð fyrir blinda og sjónskerta, starfsemi sprotafyrirtækisins Oxymap, starfsemi Augnlækna Reykjavíkur, starfsemi Nuddstofu Óla og starfsemi sjóntækjafræðinganna í Optic Reykjavík. Einnig verða til sýnis og skemmtunar leiðsöguhundar fyrir blinda, hvolpar sem hafa verið valdir til að verða leiðsöguhundar og leitarhundar frá lögreglunni og hjálparsveitunum.
Boðið verður upp á kaffiveitingar og eru allir velkomnir á meðan að húsrúm leyfir.