Ein af óteljandi samskiptaleiðum. Nýr pistill frá skyttunum þremur.

Ein af óteljandi samskiptaleiðum

Ég nota nokkrar aðferðir, þær eru: snertitáknmál, skrift á kinnina eða í tölvu og stafrófskerfi á höndina. Allar aðferðirnar hafa sína kosti og galla en ég ætla að útskýra betur hvernig stafrófskerfið á höndina virkar og hvernig það reynist í samskiptum.

Ég og tveir túlkarnir mínir fundum þetta kerfi fyrst upp árið 2009. Mér fannst erfitt að skilja táknmálsstafrófið í gegnum snertitáknmál svo  túlkarnir skoðuðu myndir af als konar samskiptaaðferðum fyrir daufblinda. Ekki pössuðu allar leiðirnar fyrir mig enda get ég ekki hreyft hendurnar mikið, en við fundum á endanum eitthvað sem var hægt að laga að mínum þörfum.

Kerfið er þannig að ákveðnir staðir á hægri hönd tákna tiltekna bókstafi. Á þumalfingri eru til að mynda stafirnir A, G, L og V, en til þess að fá Á er fyrst gerð komma á handabakið og síðan ýtt á A. Kerfið á að reynast gott til að nota í samskiptum við fólk sem kann ekki táknmál en gallinn er sá að flestir gleyma hvaða staðir tákna hvaða stafi nánast um leið og þeir læra það.

Nú á kerfið að reynast um það bil alveg fullkomið þar sem búið er að búa til hanska með stöfunum á réttum stöðum. Ég vona að hann eigi eftir að auðvelda samskipti til muna, sérstaklega þegar ég er hvorki með túlka né tölvu.

Snædís Rán Hjartardóttir