Yfirlýsing frá stjórn Blindrafélagsins vegna brota á mannréttindum blinds fólks sem þarf aðstoð í kjörklefa við að kjósa til embættis forseta Íslands

Í erindi Blindrafélagsins frá 21. júní 2012, vegna framkvæmdar á utankjörfundakosningu til forseta Íslands, var því harðlega mótmælt að þeir blindir kjósendur sem ekki gátu kosið án aðstoðar þyrftu að þola það að fulltrúi kjörstjórnar færi með þeim í kjörklefa þrátt fyrir að þessir blindu kjósendur kæmu á kjörstað með eigin aðstoðarmann.  Að mati Blindrafélagsins er þetta fyrirkomulag brot á rétti blindra til að kjósa í einrúmi og rétti þeirra til að ráðstafa sínum réttindum eftir eigin vilja. Var því gerð krafa þess efnis að fyrirkomulag forsetakosninga verði fært í lögmætt horf án tafar og að mannréttindi blindra verði þar virt í hvívetna. Innanríkisráðuneytið hefur nú svarað erindi Blindrafélagsins þar sem framangreindri kröfu er hafnað. Er það afstaða ráðuneytisins að lög standi í vegi fyrir því að framkvæma megi kosningarnar með þeim hætti sem Blindrafélagið leggi til. Vekur ráðuneytið sérstaklega máls á því að með ákvörðun Hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþing hafi sérstaklega verið tekið fram að það væri ekki á færi stjórnvalda að víkja frá skýrum fyrirmælum laga um framkvæmd kosninga.

Ljóst er að framangreind afstaða ráðuneytisins breytir engu hvað varðar þá einstaklinga sem munu ekki geta nýtt stjórnarskrárvarin mannréttindi sín til að taka þátt í leynilegum kosningum án eftirlits opinbera aðila í yfirstandandi forseta kosningum. Þessir einstaklingar eru eftir sem áður sviptir rétti sínum til að taka þátt í þeim grundvallarathöfnum sem skilgreina okkur sem samfélag. Hvort það er vegna meinbugs á lögum eða stirðbusalegrar stjórnsýslu skiptir þá í raun engu máli þar sem niðurstaðan er alltaf sú sama, alltaf jafn ólögmæt og alltaf jafn óréttlát.

Blindrafélagið er ósammála niðurstöðu ráðuneytisins hvað varðar rétt fatlaðra einstaklinga til að nota eigin aðstoðarfólk til að aðstoða sig við að kjósa í almennum kosningum í stað þess að þurfa að þola það að fulltrúi kjörstjórnar sé þar viðstaddur. Er það afstaða Blindrafélagsins að slíkur réttur rúmist innan núverandi löggjafar. Réttur fatlaðs fólks til að kjósa í einrúmi er persónulegur réttur þeirra sem einstaklinga og það er því þeirra að ráðstafa þeim rétti eftir bestu vitund. Sé það hins vegar niðurstaða ráðuneytisins að lög standi í vegi fyrir því má ljóst vera að slík lög eru að engu hafandi enda í andstöðu við fortakslaus mannréttindi um sama efni. Slík lög eru að engu hafandi og að vettugi virðandi.

Stjórn Blindrafélagsins gerir þá kröfu til Alþings Íslendinga að þingið breyti kosningalögum í þá veru að tryggt verið að mannréttindi þeirra sem þurfa aðstoð við þátttöku í leynilegum kosningum verði virt og í samræmi við ákvæði í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem er sáttmáli sem Ísland hefur skrifað undir.