Aðgengi Alltaf Allstaðar
Þótt að við hér á landi séum framarlega miðað við mörg önnur lönd þegar kemur að þátttöku blindra og sjónskertra á vinnumarkaði, þá er hún samt langt frá því að vera jafn mikil og meðal ófatlaðra. Ástæðan er margra ára aðgerðaleysi, skortur á úrræðum og miklir fordómar varðandi starfsgetu blindra og sjónskertra. Rannsóknir á Norðurlöndum sýna mjög neikvæð viðhorf gagnvart vinnuþátttöku blindra og sjónskertra og að vinnuveitendur höfðu meiri áhuga á að ráða dæmda glæpamenn en sjónskerta einstaklinga. Þetta eru slæmu fréttirnar, góðu fréttirnar eru hinsvegar að markvissar aðgerðir, fjölbreytt úrræði og upplýsingaherferðir skila árangri. Það er hægt að breyta viðhorfi fólks og sýna í verki að blint og sjónskert fólk getur og vill taka virkan þátt í atvinnulífinu.
En til þess að hafa sama aðgengi að nútíma vinnumarkaði og ófatlaðir, þá þarf að vera sama aðgengi að námi. Hér höfum við upplifað miklar framfarir, og það hafa aldrei verið fleiri blindir og sjónskertir í háskóla og núna. En við eigum samt langt í land, enn eru til menntastofnanir sem eru okkur óaðgengilegar, sem er algjörlega óásættanlegt og það er Blindrafélagsins að opna þær hurðir sem enn eru lokaðar félagsmönnum þess. Það þarf einnig að auka trú þeirra, sem vegna skorts á aðgengi hafa þurft að hörfa frá námi á árum áður, á að nú sé hægt að treysta því að nám við íslenskar menntastofnanir sé fyrir alla. Við megum ekki bara einblína á Háskóla Íslands heldur verður að tryggja að nám á öll stigum og af öllum gerðum sé aðgengilegt blindum og sjónskertum.
Til þess að það sé hægt þarf að tryggja rafrænt aðgengi. Námsefni þarf að vera aðgengilegt. Þetta hefur, fyrir tilstilli frumkvöðla úr röðum blindra og sjónskertra, og starf Miðstöðvar gjörbreyst á undanförnum áratugum og félagið hefur lyft Grettistaki í þessum efnum. Hvort sem það er með smíði á nýjum talgervli eða fjármögnun á fræðslustarfi og þýðingum. En þetta verkefni er stærra en svo að við getum leyst það ein og í hvert skipti sem okkur tekst að gera eina græju aðgengilega bætist ný óaðgengileg við. Þróunin er hröð og íslenskar þýðingar sem eru forsendan fyrir því að hægt sé að gera hana aðgengilega, ná ekki að fylgja henni eftir. Íslenska ríkið verður að sinna þessum málaflokki betur, bæði hvað varðar lagaumhverfi og fjárfestingu. Afleiðingin af því að dragast aftur úr á þessu sviði er ekki bara aðgengisleysi fyrir blinda og sjónskerta, heldur sú að íslensk tunga verður ónothæf í rafrænu samhengi og það er mun stærra lýðræðislegt vandamál.
En allt þetta er til einskis ef aðgengi á götum úti og í byggingum er ekki nógu gott. Nám, vinna og allskyns tæknilausnir verða að engu þegar maður kemst ekki einu sinni inn um dyrnar vegna vanhugsaðra lausna eða á milli staða vegna allskyns drasls sem fær að vera í vegi fyrir manni þrátt fyrir skýra löggjöf á þessu sviði. Við hljótum að krefjast þess að byggingarfulltrúar og sveitarfélögin sem þeir starfa fyrir sinni skyldum sínum og fari eftir þeim aðgengiskröfum sem eru í byggingarreglugerð. Það þýðir lítið að hafa lög í landinu ef enginn fylgir þeim. Skilti eiga ekki heima á miðjum gangstéttum, né heldur bílar og þeir hjólreiðamenn sem ferðast þar eiga að gera það á forsendum gangandi vegfaranda. Sveitarfélögin verða að tryggja mannsæmandi ferðaþjónustu svo að blindir og sjónskertir geti sinnt vinnu, sótt börnin sín í leikskóla, farið í bónus og til læknis án þess að vera eins og þátttakendur í lífshættulegum ratleik.
Þessi þróun tekur tíma og þrátt fyrir bestu mögulegu aðstæður getur atvinnuþátttaka aldrei verið 100%, þar að auki hefur stór hluti félagsmanna þegar skilað sínu á vinnumarkaði og eiga þar afleiðandi fullan rétt á því að lifa við góð kjör. Því miður eru aðstæður ekki þannig í dag og rannsóknir sýna okkur, að þeir sem þurfa að reiða sig á framfærslu frá ríkinu eiga erfiðara og erfiðara með að ná endum saman. Þeir fresta jafnvel læknisheimsóknum vegna fjárskorts. Þjóðfélag þar sem þegnar búa við fátækt vegna fötlunar eða aldurs getur seint kallast velferðarþjóðfélag. Og það er Blindrafélagsins að berjast fyrir bættum kjörum fyrir okkar félagsmenn. Hvort sem það er hærri lífeyrir, barnalífeyrir eða lægri heilbrigðiskostnaður.
En hér skortir líka samtakamátt og þá sérstaklega varðandi félagslegt húsnæði, öryrkjar geta ekki lengur keppt á fasteignamarkaði og það er nauðsynlegt að ríki og sveitafélög komi að því að leysa vaxandi húsnæðisvanda. Félagið þarf að mynda sér skýra húsnæðisstefnu og vinna markvisst að því að koma henni á framfæri.
Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks tekur á þessum réttindamálum, og er mikilvægt verkfæri í barráttu um betri kjör. Við þurfum að halda stjórnvöldum við efnið og tryggja það að íslensk löggjöf verði að löguð að sáttmálanum.
Það eru ófá verkefni framundan fyrir Blindrafélagið og það er ekki ókeypis að vinna að réttindamálum, þær auðlindir sem fjármagna starfið, eignirnar og fjáraflanirnar, þurfum við að nýta af hagkvæmni, með skýra stefnu og sjónarmið allra félagsmanna að leiðarljósi. Annars eigum við á hættu að þær þurrkist út og það mun engin annar fjármagna öll þessi verkefni sem skipta okkur svo miklu máli.
Við þurfum að rækta gott og skilvirkt samstarf við marga ólíka aðila, allt frá stofnunum, fyrirtækjum og félagsamtökum. Það krefst faglegra vinnubragða, styrks og stöðuleika. En félagið þarf líka að vera til staðar fyrir félagsmenn, bæði á góðum stundum með skemmtanahaldi og fjöri og á erfiðum stundum með jafningjastuðning og hlýju. Félagsmenn eiga að geta leitað til okkar í öllu, stóru sem smáu og það krefst áhuga á mannlegum samskiptum og innsæis að starfrækja þannig félagsskap.
Blindrafélagið er 75 ára í ár, og hefur hingað til unnið mikið og metnaðarfullt starf sem gjörbylt hefur lífskjörum blindra og sjónskertra á Íslandi. Með réttum áheyrslum getum við á næstu 75 árum breytt jafnmiklu og hver veit, gert okkur að lokum óþörf.