Stórviðburður í Borgarleikhúinu þegar  Hamlet litli verður sýndur með sjónlýsingu.

Hamlet litli plakatLaugardaginn 10. maí kl. 13:00 mun eiga sér stað stórviðburður í Borgarleikhúsinu. Þá mun í fyrsta sinn á Íslandi leiksýning verður táknmálstúlkuð og sjónlýst fyrir leikhúsgesti. Hér er um merkan viðburð að ræða þegar kemur að aðgengi að listum og menningu fyrir blinda, sjónskertra og heyrnarlausa. Sýningin er hluti af dagskrá Listar án landamæra. Rétt er að hvetja allt áhugafólk um aukið aðgengi allra að listum og menningu að láta  þennan stórviðburð ekki fram hjá sér fara. 

Um sýninguna 

Þegar Hamlet litli missir föður sinn er hann harmi sleginn og fer að haga sér stórfurðulega. Ekki batnar það þegar mamma hans ætlar örfáum dögum eftir útförina að giftast bróður pabba hans – og bróðirinn hefur örugglega eitthvað óhreint í pokahorninu. Óbærilegt verður þó ástandið þegar bestu vinir hans eru fengnir til að njósna um hann. Þau halda öll að hann sé að fara á límingunum. En hver myndi ekki fá að minnsta kosti vægt taugaáfall við þessar aðstæður?
Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri Galdrakarlsins í Oz og Mary Poppins, færir þennan risastóra harmleik á Litla sviðið þar sem sjónarhorni hins litla Hamlets verður beint að áhorfendum. Sorgin yfir föðurmissi, óttinn við að missa móður og brostið traust til vina. Eitt þessara áfalla ætti að vera nóg til að trufla tilfinningalíf fullorðinnar manneskju, hvað þá ungrar sálar. Hér verður þó leikið á als oddi. Hugarheimur barnsins býr yfir ótal verkfærum til að takast á við áföll, sorgir og jafnvel stríð. Það gerir leikhúsið líka.
Bergur fær til liðs við sig tónlistarkonuna Kristjönu Stefánsdóttur en þau áttu einmitt ógleymanlegt samstarf í Galdrakarlinum í Oz sem og verðlaunasýningunni Jesú litla sem hefur verið reglulegur gestur á Litla sviðinu um jólin undanfarin ár.