Blindrafélagið gerir athugasemd við framkvæmd á utankjörfundakosningu til forseta Íslands

í bréfinu segir:
"Umbjóðanda mínum hafa borist tilkynningar þess efnis að blindum einstaklingum sé, óheimilt að kjósa í einrúmi með aðstoð fulltrúa að eigin vali, í yfirstandandi forsetakosningum. Framkvæmdin hefur, að sögn félagsmanna í Blindrafélaginu, verið með þeim hætti að aðeins fulltrúi kjörstjórnar má vera blindum til aðstoðar í kjörklefa. Það fyrirkomulag telur umbjóðandi minn vera brot á mannréttindum blindra.

Umbjóðandi minn vill góðfúslega vekja athygli ráðherrans á þeirri grundvallarreglu sem gildir í öllum lýðræðisríkjum að kjósendur skuli geta kosið fulltrúa sína með leynilegri kosningu. Þessi regla kemur m.a. skýrt fram í 3. gr. 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem kveðið er á um að kosningar skuli vera leynilegar. Sú regla endurspeglast einnig í 1. mgr. 81. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 þar sem fram kemur að kjósandinn megi einn vera í kjörklefa. Þá kemur fram í 2. mgr. sömu greinar að það sé markmið laganna að blindir skuli geta kosið í einrúmi. Þessu til viðbótar kemur skýrt fram í 29 gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að aðildarríkin skuldbindi sig til að vernda rétt fatlaðra til þess að taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu.

Fyrirhuguð framkvæmd felur það í sér að blindir muni ekki geta kosið án þess að vera undir eftirliti opinbers aðila. Það er því ljóst að fyrirkomulagið sniðgengur framangreindan grundvallarrétt blindra til að kjósa í leynilegri kosningu. Umbjóðandi minn telur það vera sjálfsagðan rétt þeirra sem þarfnast aðstoðar við þátttöku í kosningum að velja sér aðila til aðstoðar. Rétturinn til að kjósa í einrúmi tilheyrir einstaklingnum sjálfum og einstaklingurinn á að geta ráðstafað þessum rétti eftir eigin vilja þegar nauðsyn krefur. Ef blindur einstaklingur tilnefnir eigin aðstoðarmann á það því að vera réttur hans að kjósa með aðstoð þess aðstoðarmanns án frekari aðkomu annarra aðila. Hafi blindur einstaklingur hins vegar ekki slíkan aðila sér til aðstoðar er rétt að sá úr kjörstjórninni, er kjósandi nefnir til, veiti honum aðstoð í kjörklefanum sbr. 1. mgr. 88. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24 frá 2000. Það er hins vegar fortakslaust brot á mannréttindum blindra að framkvæmd atkvæðagreiðslu þeirra sé háð eftirliti þriðja aðila.

Réttur blindra einstaklinga til að kjósa í einrúmi er skýr og hefur verið bundinn í íslensk lög allt frá árinu 1959. Það vekur því furðu að hálfri öld síðar hafi stjórnvöld enn ekki náð tökum á viðfangsefninu. Í því samhengi er rétt að rifja upp að ítarlega var farið yfir þessi mál með ráðherra fyrir kosningar til stjórnlagaþings árið 2010. Við þá yfirferð fullvissaði ráðherra umbjóðanda minn um að við framkvæmd kosninga yrði framvegis tekið fullt tillit til blindra. Svo virðist hins vegar ekki vera gert við framkvæmd forsetakosninga 2012. Umbjóðandi minn krefst þess að fyrirkomulag forsetakosninga verði fært í lögmætt horf án tafar og að mannréttindi blindra verði þar virt í hvívetna."

Lögmaður Blindrafélagsins er Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl. á Málflutningsstofu Reykjavíkur.

Bréfið í heild má sjá hér