Barna og ungmennaþing Blindrafélagsins

Á degi Hvíta stafsins 15. október 2013.

Dagskrá þingsins hófst með heimsókn  Elísabetar Gísladóttir umboðsmanns barna og fræddi hún þingfulltrúa um Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Elísabet kynnti sáttmálann almennt og ræddi síðan sérstaklega um réttindi barna til menntunnar og tómstunda. Fjörleg umræða var um málefnið og þá sérstaklega um hugtakið hvað væru réttindi og hvernig börn gætu með umræðu staðið vörð um réttindi sín til þátttöku í ákvörðunum sem þau varðaði.

Þátttakendur á barna og ungmennaþingi Blindrafélagsins 2013

Þá var þátttakendum skipt í tvo umræðuhópa sem ræddu um skólamál, tómstundamál og hvert hlutverk Blindrafélagsins ætti að vera í lífi blindra og sjónskerta barna.  Umræðum  í hópunum var stjórnað af Halldóri Sævari Guðbergssyni og Elfu Hermannsdóttur sem bæði starfa sem ráðgjafar á Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda,  sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Þingfulltrúar voru almennt sammála um að skólinn væri bæði skemmtilegur og góður staður að vera á en þó komu fram raddir sem töldu að ýmislegt mætti betur fara í frímínútum,  bæði hvað varðaði umgjörð frístundasvæðis og félagsskap.  Allir voru þingfulltrúar uppteknir við ýmiskonar tómstundaiðkun,  bæði þátttöku í íþróttum og tónlistarnám.  Heimanámið fannst þeim taka heldur mikinn tíma en það eiga þau mjög líklega sameiginlegt með ófötluðum jafnöldrum sínum.

Varðandi spurninguna um hvað Blindrafélagið gæti gert til þess að efla félagstarf  blindra og sjónskertra barna var umræðan mjög lífleg.  Þau höfðu mikinn áhuga á því að kynnast betur og vera meira saman í hóp.  Þau voru áhugasöm um að Blindrafélagið stæði fyrir fjölbreyttara félagslífi fyrir börn og ungmenni og það komu fram margar jákvæðar uppástungur um hvað það væri helst sem þau vildu gera saman.  Eina vandamálið var að finna tíma aflögu í þéttsetinni dagskrá hversdagsins til þess að bæta viðburðum  á vegum félagsins þar við.

Þinghald dagsins endaði á heimsókn Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra sem ávarpaði þingið og svaraði spurningum.  Þar fóru fram fjörugar umræður um starfsvið ráðherrans og framtíðarvonir  ungmennanna.  Á meðal þess sem rætt var um voru hugðarefni viðstaddra um tómstundir sem ráðherrann viðurkenndi að hún fyndi ekki mikinn tíma aflögu til þess að stunda. Í því sambandi minntist hún á að hana hefði alla tíð langað til þess að prófa að fara í keilu og voru þingfulltrúar ekki lengi að ákveða sig um að það væri góð hugmynd að bjóða henni að koma með hópnum í Keiluhöllina við gott tækifæri.  Sem Eygló þáði með þökkum og vonum við að því hafi hér með verið bætt á verkefnalista félagsmálaráðherra.

Þinginu lauk síðan með þátttöku þingfulltrúa í samkomu Blindrafélagsins í tilefni dagsins þar sem þau skýrðu frá niðurstöðum þingsins og hlutu viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna og gjafabréf í keilu..

Þátttakendur á barna og ungmennaþinginu voru á aldrinum 9 – 17 ára, þau voru:

Áslaug Hjartardóttir
Laufey Ýr Gunnarsdóttir
Margrét Helga Jónsdóttir
Már Gunnarsson
Ólafur Einar Ólafsson
Sandra Sif Gunnarsdóttir
Sigurður Þorri Sigurðsson
Theódór Kristinsson
Vaka Rún Þórsdóttir