Fundargerð stjórnar nr. 16 2018-2019

Fundargerð 16. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2018 – 2019, haldinn miðvikudaginn 3. apríl kl. 16:00 að Hamrahlíð 17.

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varaformaður, Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ) gjaldkeri, Rúna Ósk Garðarsdóttir (RÓG) meðstjórnandi, Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) og Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.

Fjarverandi: Hjalti Sigurðsson (HS) ritari.

1. Fundarsetning og lýst eftir öðrum málum.

SUH bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt samhljóða.

Lýst eftir öðrum málum: LS og EKÞ.

2. Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerð 15. fundar, sem hafði verið send stjórnarmönnum fyrir fundinn, var samþykkt samhljóða.

3. Skýrslur bréf og erindi.

Í skýrslu formanns var fjallað um:

  • Málþing ÖBÍ um kjaramál.
  • Fundur með RÚV vegna aðgengismála 18. mars.
  • Viðhaldsframkvæmdir í Hamrahlíð 17.
  • Tölvunámskeið.
  • Fræðsluerindaröðin.
  • Fundur með grænlensku blindrasamtökunum.
  • Undirbúningur RIWC, fundur með NOK nefndinni.
  • Varðveisla menningararfsins, fundur með Ljósmyndasafni RVK.
  • Landssöfnun Lions „Rauða fjöðrin“ 5. til 7. apríl.
  • Hamrahlíð 17, stækkunarmöguleikar.
  • Hádegisspjall 3. Apríl.
  • 80 ára afmæli Blindrafélagsins.
  • Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Blindrafélagið.
  • UNK ráðstefna 2019 - undirbúningur.
  • Mikilvægar dagsetningar.

Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

  • Starfsmannamál.
  • Framkvæmdir og húsnæðismál.
  • Stækkun á Hamrahlíð 17.
  • Fjáraflanir og styrkir.
  • Ferðaþjónusta.
  • Samkeppni á vegum EBU um ferðaþjónustu.
  • Styrktarumsóknir úr Stuðningi til sjálfstæðis.

Erindi:

Íþróttasamband fatlaðra sækir um 175.000 kr. styrk til reksturs sumarbúða. Samþykkt samhljóða að Verkefnasjóður styrki verkefnið.

4. Inntaka nýrra félaga.

Engar umsóknir um félagsaðild lágu fyrir.

5. Veiting Samfélagslampa og Gulllampa.

SUH lagði fram tillögur um að þremur einstaklingum yrði veittur Gulllampi Blindrafélagsins, þeim Eiríki Rögnvaldssyni, Helgu Ólafsdóttur og Þóru Sigríði Ingólfsdóttur. Og að tveimur aðilum, Hljóðbókasafni Íslands og OJK, yrði veittur Samfélagslampi Blindrafélagsins.

• Eiríkur Rögnvaldsson, framlagður rökstuðningur:

Í nútíma stafrænu samfélagi er aðgengi að rafrænum upplýsingum, þjónustu og hverskonar afþreyingu lykilatriði þegar kemur að möguleikum manna til að vera virkir í samfélaginu. Sérstaklega á þetta við um samfélagsþátttöku blindra og sjónskertra einstaklinga. Máltækniverkfæri eins og talgervlar og talgreinar sem vinna á íslenskri tungu skipta þar sköpum. Ekki bara í þeim tilgangi að auðvelda aðgengi fyrir blinda og sjónskerta, heldur ekki síður til að verja íslenska tungu í veruleika þar sem samskipti manns og tölvu fara í síauknu mæli fram í töluðu máli.
Eiríkur Rögnvaldsson hefur um árabil verið í fararbroddi þeirra sem hafa vakið athygli á stöðu íslenskunnar á tölvuöld og barist fyrir því að íslenskan verði gjaldgeng í stafrænum heimi og þannig átt frumkvæði að því að forða íslenskri tungu frá stafrænum dauða. Hann lagði einnig Blindrafélaginu mikið lið við smíði Íslensku talgervlana Karls og Dóru.
Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus í íslenskri málfræði hlýtur Gulllampa Blindrafélagsins fyrir óbilandi baráttudug fyrir því að íslenskan verði gjaldgeng í stafrænum heimi og stuðlað þannig að betra aðgengi blindra og sjónskertra að tækifærum hinnar stafrænu snjalltækja aldar með viðeigandi máltæknilausnum.

• Helga Ólafsdóttir, framlagður rökstuðningur:

Helga Ólafsdóttir nam bókasafnsfræði við Háskóla Íslands og fjallaði lokaritgerð hennar um bókaþjónustu við blinda á norðurlöndunum og Íslandi. Síðar fór hún til framhaldsnáms til Bandaríkjanna að kynna sér bókaþjónustu fyrir blint og sjónskert fólk.
Að námi loknu varð Helga einn af fyrstu starfsmönnum Borgarbókasafns Reykjavíkur sem sinntu dreifingu hljóðbóka og varð fyrsti vísir að hljóðbókasafninu. Þar starfaði hún ötullega að dreifingu hljóðbóka til lánþega við þröngar og erfiðar starfsaðstæður og fábrotinn tækjakost. Helga Ólafsdóttir varð fyrst til að orða þá hugmynd að það yrði að stofna blindrabókasafn og átti ásamt fleiri frumkvöðlum drjúgan þátt í að það varð að raunveruleika.
Helga var skipuð í undirbúningsnefnd að stofnun Blindrabókasafns og vann af eljusemi að því markmiði. Hún varð fyrsti forstöðumaður safnsins og gegndi því starfi þar til hún lét af störfum fyrir aldursakir. Alla tíð var Helga vakin og sofin yfir velferð safnsins og fylgdist vel með tækninýjungum og leiddi þróun safnkostsins frá segulböndum yfir í snældur og fyrstu skrefin inn í stafrænu öldina en Blindrabókasafn Íslands var í fararbroddi norrænna hljóðbókasafna við að tileinka sér Daisy tæknina við hljóðbókagerð.
Helga Ólafsdóttir hlýtur Gulllampa Blindrafélagsins fyrir ómetanlegt frumkvæði að stofnun hljóðbókasafns á Íslandi og dugnað við að tryggja vöxt þess og velgengni.

• Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, framlagður rökstuðningur:

Frá upphafi markaði Þóra Sigríður sér þá stefnu að búa blindum, sjónskertum og leshömluðum betra bókasafn sem ætti að verða meira áberandi þannig að allir sem þurfa á þjónustunni að halda viti af safninu og geti leitað til þess. Í hennar tíð varð Blindrabókasafnið að Hljóðbókasafni Íslands og notendum hefur fjölgað verulega eftir því sem fleiri hópar leshamlaðra njóta þjónustu þess.
Þóra Sigríður hefur leitt safnið í gegnum tvær tæknibyltingar. Sú fyrri fólst í að ljúka við að færa allan safnkostinn af böndum yfir í stafrænt form og þar með var geisladiskurinn tekinn við og snældan heyrði sögunni til. Sú síðari var að færa þjónustu safnsins inn á veraldarvefinn með gagnvirkri heimasíðu, streymisveitu í gegnum hljóðbókarsmáforritið og vefvarp Blindrafélagsins. Nú er snjallvæðingin tekin við og brátt heyri geisladiskurinn sögunni til.
Þóra Sigríður stóð alla tíð dyggan vörð um tilverurétt safnsins og þar með um rétt notenda safnsins til að njóta bóka til jafns við aðra.

Voru þessar tillögur samþykktar samhljóða af öllum aðal- og varastjórnarmönnum.

Stefnt verði að veitingu Gulllampans á aðalfundi Blindrafélagsins og Samfélagslampans á afmælisdegi félagsins.

6. Stækkun Hamrahlíðar 17.

Svar hefur borist frá Borgarskipulagi við fyrirspurn um að bæta einni inndreginni hæð ofan á Hamrahlíð 17. Niðurstaða borgarskipulags var svohljóðandi:

„Vel þykir fara á því að hús sem stendur á horni rísi hærra en húsin umhverfis og á það vel við á þessum stað að umræddur húshluti rísi hærra og sé ákveðið kennileiti. Því er mælt með því að eigendum verði heimilað að láta vinna breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað og í samráði við verkefnisstjóra hjá skipulagsfulltrúa. Í þeirri vinnu er lagt til að unnið verði betur með formun hæðarinnar og þakform.“

Forstjóra og skrifstofustjóra ÞÞM hafa verið kynnt þau áform félagsins að bjóða Miðstöðinni upp á þessa viðbót í húsnæði svo Miðstöðin þyrfti ekki að flytja úr húsinu vegna plássleysis. Jafnframt var þeim kynnt sú ætlan að kynna þetta fyrir Félagsmálaráðherra. Fundur verður með Félagsmálaraðherra 10 apríl næst komandi.

SUH gerði að tillögu sinni að hafin yrði vinna við að útfærslu á stækkuninni i samstarfi við Borgarskipulag. Var tillagan samþykkt samhljóða.

7. Vitundarvakning.

SUH reifaði hugmynd að vitundarvakningar verkefni meðal almennings í garð blinds og sjónskerts fólks í anda herferðar Gráa hersins. SUH og EKÞ tóku að sér frekari útfærslu á hugmyndinni sem kynnt verður fyrir stjórn.

8. Kynning á drögum að ársreikningi.

Guðný H. Guðmundsdóttir endurskoðandi félagsins var mætt á fundinn til að kynna drög að ársreikningi Blindrafélagsins fyrir 2018. Afkoma af hefðbundnum rekstri Blindrafélagsins er mjög góð á árinu 2018. Umræður urðu um framsetningu ársreikningsins með tilliti til viðhaldsframkvæmda, verkefnasjóðs og rekstrarafkomu. Samþykkt var að KHE myndi í samstarfi við Guðnýju fara yfir kostnað vegna viðhaldsframkvæmda og skoða hvort að eitthvað ætti frekar að færa til gjalda en í gegnum efnahagsreikning. Ákveðið var að fundur yrði 10. apríl kl. 12:30 þar sem að skrifað yrði undir ársreikninga félagsins og sjóða.

9. Önnur mál.

EKÞ spurðist fyrir um hvort að vilji væri til að fjölga styrkúthlutunum úr STS úr tveimur í þrjár á ári. Ekki var hljómgrunnur fyrir því meðal stjórnarmanna.

LS sagði frá því að von væri á áhættumati vegna innflutnings á hundum nú í apríl mánuði.

LS sagði frá því að á fundi hefðu fulltrúar frá Ökukennarafélaginu komið að máli við sig og tjáð henni að áhugi væri á að efna til viðburðar þar sem félögum Blindrafélagsins yrði gert kleift að prufa að aka bifreiðum á öruggu svæði sem þeir hafa til umráða.

RR vakti athygli á ráðstefnu EBU fyrir konur í leiðtogahlutverkum innan aðildarfélaga EBU, bæði framtíðar leiðtoga og núverandi leiðtoga.

SUH vakti athygli á því að aðalfundur Blindrafélagsins yrði haldinn 11. maí og þyrfti að boða fundinn með 4 vikna fyrirvara. KHE mun senda út fundarboð 12. apríl.

Fundi slitið kl. 18:55.
Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.