Fundargerð stjórnar nr. 19 2018-2019

Fundargerð 19. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2018 – 2019, haldinn fimmtudaginn 9. maí kl. 16:00 að Hamrahlíð 17.

Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varaformaður, Hjalti Sigurðsson (HS) ritari, Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ) gjaldkeri, Rúna Ósk Garðarsdóttir (RÓG) meðstjórnandi, Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) og Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.

Fjarverandi:

1. Fundarsetning og lýst eftir öðrum málum.

SUH bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt samhljóða. 

Engin önnur mál voru boðuð.

2. Afgreiðsla fundargerðar.

Fundargerðir 18 fundar, sem send hafði verið stjórnarmönnum fyrir fundinn, var samþykkt samhljóða.

3. Skýrslur bréf og erindi.

Vegna veru erlendis lá ekki fyrir skrifleg skýrsla formanns. Hann hins vegar gerði grein fyrir að sjóðsstjórnin sjóðsins Blind börn hafi úthlutað 7 styrkjum upp á 365 þúsund krónur.

Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:

  • Aðalfundur Blindrafélagsins.
  • Starfsmannamál.
  • Rekstur Blindrafélagsins á 1. ársfjórðungi 2019.
  • Framkvæmdir og húsnæðismál.
  • Áhættumatsskýrsla um innflutning á hundum.
  • Fjáraflanir.
  • Ferðaþjónusta.
  • Málefni Hljóðbókasafns Íslands.
  • Aðalfundur Blindravinnustofunnar ehf.
  • Styrktarsjóður Richards P. Theodórs og Dóru Sigurjónsdóttur.
  • Samningur við Félags og barnamálaráðuneytið um fjármögnun kaupa á leiðsöguhundum.

Í kaflanum um framkvæmdir er greint frá áhuga húsfélagsins að Bogahlíð 26 að reisa girðingu á milli lóðanna á Bogahlíð 26 og Hamrahlíðar 17. Voru tvö mismunandi tilboð kynnt. Samkvæmt þeim mun slík framkvæmd kosta um 1,5 miljónir króna. Stjórnin samþykkti að gefa framkvæmdastjóra heimild til að semja um að reisa viðhaldslitla girðing á milli lóðanna. Framkvæmdirnar verði fjármagnaðar úr Verkefnasjóði ef af verður.

Engin innsend erindi lágu fyrir.

4. Inntaka nýrra félaga.

Í apríl mánuði komu 9 umsóknir um félagsaðild. Voru þær allar samþykktar með fyrirvara um samþykki aðalfundar.

5. Rekstraryfirlit 1. ársfjórðungs.

Megin rekstrarniðurstað á 1. ársfjórðungi 2019 er:

Heildartekjur 66,2 miljónir króna, sem er 0,3% undir áætlun.
Heildargjöld 57,8 miljónir króna, sem er 5% undir áætlun.
Afkoma fyrir fjármagnsliði er jákvæð um 8,4 miljónir króna, en áætlun gerði ráð fyrir 7,2 miljónum króna.
Hagnaður af reglulegri starfsemi að meðtöldum fjármagnskostnaði er 7,7 miljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir 6,6 miljónum króna.

Stjórn lýsti yfir ánægju sinni með rekstrarniðurstöðu tímabilsins.

Aðalfundur Blindrafélagsins 11. maí 2019.

Þann 12 apríl, með 4 vikna fyrirvara, eins og lög gera ráð fyrir, var boðað til aðalfundar Blindrafélagsins laugardaginn 11 maí. Undirbúningur gengur samkvæmt áætlun. Kjörnefnd félagsins kom saman 20 apríl og úrskurðaði þau sex framboð sem að bárust lögleg. Reglur um kosningu til stjórnar voru birtar á vefsíðu félagsins og kynntar í sérstöku aukafréttabréfi sem sent var út 30.04.2019. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst 29 apríl. Ársreikningar og ársskýrsla lágu frammi á skrifstofu Blindrafélagsins og birtust á miðlum félagsins 3. maí, eins og lög mæla fyrir um. Engar óskir bárust um að setja upp kjörfundi í landshlutadeildum félagsins.

Tillaga að dagskrá aðalfundarins er eftirfarandi:

  1. Fundarsetning.
  2. Kynning fundarmanna.
  3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  4. Fundargerð síðasta aðalfundar borin upp til samþykktar.
  5. Inntaka nýrra félaga.
  6. Látinna félaga minnst.
  7. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á síðastliðnu ári.
  8. Afgreiðsla ársreikninga félagsins og sjálfstæðra rekstrareininga.
  9. Kosning tveggja aðalmanna og tveggja varamanna í stjórn.
  10. Ályktannatillögur stjórnar.
  11. Veiting Gulllampa Blindrafélagsins (klukkan 15:30-16:00, öðrum dagskrárliðum hliðrað til.)
  12. Árstillag félagsmanna og gjalddagi þess.
  13. Kosning í kjörnefnd.
  14. Aðalfundur ákveður laun stjórnarmanna.
  15. Önnur mál.
  • Guðný Helga Guðmundsdóttir endurskoðandi félagsins mun mæta á fundinn og kynna ársreikningana.
  • Hjörtur Heiðar Jónsson hefur fallist á að taka að sér fundarstjórn og Marjakaisa Matthíasson fundarritun.
  • Friðrik Friðriksson, Hildur Björnsdóttir og Ingólfur Garðarsson, starfsmenn félagsins, munu gefa kost á sér í talninganefnd.

Eftirfarandi tillögur til ályktunar sem stjórn leggur fyrir aðalfundinn:

Evrópska aðgengistilskipunin innleidd á Íslandi.

Aðalfundur Blindrafélagsins, haldinn 11. maí 2019, skorar á íslensk stjórnvöld að innleiða án tafar vefaðgengistilskipun Evrópusambandsins (Web Accessability directive). Enn fremur skorar félagið á vefhönnuði, forritara og forráðamenn fyrirtækja í stafrænni þjónustu að taka frumkvæðið í sínar hendur og innleiða markviss vinnubrögð til að tryggja gott aðgengi. Meðal annars að kynna sér og nota WCAG staðalinn í allri stafrænni hönnun og stuðla þannig að bættu aðgengi blindra og sjónskertra einstaklinga að upplýsingum og þjónustu á vefnum og um leið að auknum lífsgæðum þeirra.

Greinargerð.

Stafræna byltingin hefur aukið til muna möguleika blindra og sjónskertra einstaklinga á samfélagslegri virkni langt umfram það sem áður hefur verið möguleiki á. Tölvutækni hefur frá upphafi verið blindum og sjónskertum aðgengileg með aðstoð hjálparbúnaðar. Það hefur leitt af sér tækifæri sem hefði reynst torsótt að nýta án tölvutækninnar. Þannig er hægt að sinna störfum, sækja sér þjónustu og leita upplýsinga án þess að þurfa að beita sjóninni. Þróun undanfarinna áratuga hefur hins vegar verið sú að hönnun og uppsetning vefsvæða er blindum og sjónskertum oft óaðgengileg. Þannig hafa tækifæri sem felast í aukinni atvinnuþátttöku og almennri virkni blindra og sjónskertra einstaklinga farið forgörðum með tilheyrandi verðmætasóun. Eingöngu vegna þess að almennum og einföldum aðgengiskröfum um virkni staðlaðs stoðbúnaðar er ekki mætt. Þar með eru blindir og sjónskertir einstaklingar settir til hliðar í þeirri stafrænu byltingu sem á að tryggja þeim betri tækifæri og aukið sjálfstæði. Stofnanir Evrópusambandsins hafa gert sér grein fyrir þessum vanda og hafa sett löggjöf sem tryggir rétt blindra og sjónskertra að aðgengilegum veflausnum. ESB hefur þegar sett lög um aðgengi að opinberri stafrænni þjónustu innan ESB og á leiðinni eru lög um aðgengi að þjónustu á almennum markaði. Þessi löggjöf er hluti af EES samningnum og ber því að innleiða hana hér á landi. Innleiðing þessara aðgengislöggjafa er grundvöllur þess að blindir og sjónskertir einstaklingar geti unnið á almennum vinnumarkaði, fyrir sjálfstæðri búsetu og almennum lífsgæðum. Einnig er mikilvægt að vefhönnuðir, forritarar og forráðamenn fyrirtækja í stafrænni þjónustu séu vel kunnugir þeim stöðlum sem aðgengis löggjöfin byggir á. Reynslan af að beita WCAG staðlinum í rafrænni hönnun sýnir að það bætir ekki aðeins aðgengi fyrir fatlaða einstaklinga heldur tryggir það einnig aðgengilega og góða hönnun sem er öllum til hagsbóta. Þannig geta algild hönnunarviðmið í stafrænni þjónustu leitt af sér aukin þægindi og betri upplifun fyrir alla notendahópa.

 

Ferðafrelsi leiðsöguhunda.

Aðalfundur Blindrafélagsins, haldinn 11. maí 2019, skorar á íslensk stjórnvöld að afnema reglur um fjögurra vikna sóttkví fyrir leiðsöguhunda við komu þeirra til landsins. Reglurnar eru yfirdrifnar, íþyngjandi og ónauðsynlegar samkvæmt nýju áhættumati sem unnið var að erlendum sérfræðingi fyrir íslensk stjórnvöld. Áhættumatið (Risk Assessment of Import of dogs and cats to Iceland - with special attention to Guide-dogs), sýnir að hættan á að leiðsöguhundar fyrir blinda beri með sér smitsjúkdóma er mjög lítil. Helgast það meðal annars af því að leiðsöguhundar eru undir virku eftirliti dýralækna og eru bólusettir gegn öllum þeim sjúkdómum sem að MAST gerir kröfur um. Eftir stendur að sé tekið mið af áhættumatinu, reglum sem beitt er í öðrum löndum sem hafa samsvarandi viðmið og gilt hafa hér á landi varðandi smitsjúkdóma í dýrum og núverandi reglum á Íslandi. Þá eru reglurnar sem hér gilda óþarfar, alltof íþyngjandi og þjóna ekki öðrum tilgangi en þeim að hefta ferðafrelsi leiðsöguhunda fyrir blinda til landsins með tilheyrandi óþægindum fyrir hundana og mannréttindabrotum gagnvart notendum þeirra.

Um leiðsöguhunda.

Aðlögun og þjálfun leiðsöguhunda fyrir blinda hefst strax þegar hundarnir eru hvolpar og stendur í eitt og hálft til tvö ár. Frá árinu 2008 hefur Blindrafélagið flutt inn 9 hunda frá Noregi og Svíþjóð. Þeir hafa komið fullþjálfaðir til landsins og gengist undir ítarlegar læknisskoðanir erlendis og hérlendis. Ekki hafa komið fram neinir smitsjúkdómar hjá þeim enda eru hundarnir bólusettir fyrir öllum þeim sjúkdómum sem að MAST gerir kröfur um. Það hefur haft veruleg áhrif á hundana og þjálfun þeirra að þeir hafa þurft að vera í fjögurra vikna sóttkví áður en þjálfun með notanda getur hafist. Það segir sig sjálft að hundar sem hafa verið þjálfaðir í svo langan tíma til að þjóna ákveðnu hlutverki hafa ekki gott af því að vera í fjögurra vikna einangrun frá þjálfara sínum.

En hvað gerir leiðsöguhunda frábrugðna öðrum hundum?

Leiðsöguhundar hafa hlotið ítarlega þjálfun í að aðstoða blinda og sjónskerta einstaklinga við að komast leiðar sinnar á öruggan og sjálfstæðan hátt. Leiðsöguhundurinn er meðal annars sérþjálfaður í því að:

    • forðast hindranir á gönguleið, bæði á jörðu og í höfuðhæð (t.d. trjágreinar og skilti).
    • hindra að notandinn hrasi um vegkanta eða tröppur.
    • stöðva við öll gatnamót.
    • fara yfir umferðargötur á öruggan hátt með því að forðast að ganga í veg fyrir bíla og önnur farartæki.
    • finna staura við gangbrautir, bekki og laus sæti í biðstofum.
    • fylgja fjölda fyrirmæla sem notandinn gefur og sækja hluti sem notandi missir.

Það má því öllum vera ljóst að leiðsöguhundur er notanda sínum afar nauðsynlegur.  

 

Hljóðbókasafn Íslands.

Aðalfundur Blindrafélagsins, haldinn 11. maí 2019, mótmælir hugmyndum um að leggja niður Hljóðbókasafn Íslands og færa starfsemi þess undir Landsbókasafnið.

Forveri Hljóðbókasafnsins er Blindrabókasafn Íslands sem á rætur í samstarf Blindrafélagsins og Borgarbókasafns Reykjavíkur um dreifingu hljóðbóka til félagsmanna Blindrafélagsins. Blindrafélagið gegndi lykilhlutverki í þessari áratuga vegferð. Hljóðbókasafnið gegnir lykilhlutverki við að tryggja blindum og sjónskertum þau sjálfsögðu mannréttindi að fá notið bókmennta til jafns við aðra. Jafnframt því að tryggja leshömluðum námsmönnum aðgang að námsbókum. Ítrekaðar kannanir á meðal félagsmanna Blindrafélagsins hafa sýnt fram á mikla ánægju með þjónustu Hljóðbókasafns Íslands. Af þessum niðurstöðum má vera ljóst að þjónusta Hljóðbókasafnsins er félagsmönnum Blindrafélagsins afar dýrmætt.

Áður en vinna verður sett í gang sem að hefur það að markmiði að leggja niður Hljóðbókasafn Íslands og færa starfsemi þess undir Landsbókasafnið, fer Blindrafélagið þess á leit við Menntamálaráðherra að efnt verði til viðræðna um að Blindrafélagið taki að sér rekstur Hljóðbókasafnsins.

6. Önnur mál.

SUH gerði að tillögu sinni að Baldur Snær Sigurðsson og Rósa María Hjörvar yrðu skipaðir í stjórn TMF Tölvumiðstöðvar.
Þar sem þetta er seinasti fundur þessarar stjórnar þá þökkuðu stjórnarmenn hverjum öðrum fyrir ánægjulegt samstarf á árinu.

Fundi slitið kl. 17:45.
Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.