Fundargerð 14. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2018 – 2019, haldinn miðvikudaginn 20. febrúar kl. 16:00 að Hamrahlíð 17.
Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Lilja Sveinsdóttir (LS) varaformaður, Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ) gjaldkeri, Hjalti Sigurðsson (HS) ritari, Rúna Ósk Garðarsdóttir (RÓG) meðstjórnandi, Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) og Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.
Fjarverandi: enginn.
1. Fundarsetning, dagskrá og lýst eftir öðrum málum.
Formaður (SUH) setti fundinn kl. 16:00 og bauð fundarmenn velkomna.
SUH bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu. Var tillagan samþykkt samhljóða.
Lýst eftir öðrum málum: SUH og EKÞ boðuðu önnur mál.
2. Afgreiðsla fundargerðar.
Fundargerð 13. fundar, sem hafði verið send stjórnarmönnum fyrir fundinn, var samþykkt samhljóða.
3. Skýrslur bréf og erindi.
Í skýrslu formanns var fjallað um:
- Fund með Félags- og barnamálaráðherra.
- Hamrahlíð 17 stækkunarmöguleikar.
- Hádegisspjall 30. janúar.
- Fund með Þuríði Hörpu formanni ÖBÍ 30 janúar.
- Almannaheill - Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
- Formannafundur ÖBÍ.
- NSK og NKK fundir 4. og 5. mars.
- UNK ráðstefna 2019 - undirbúningur.
- Erlent og innlent samstarf, mikilvægar dagsetningar.
Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:
- Starfsmannamál.
- Framkvæmdir og húsnæðismál.
- Fjáraflanir.
- Fund með Félags og barnamálaráðherra.
- Ferðaþjónusta í Kópavogi.
- Samningur við 1819.
- Íbúð laus til útleigu.
- Vísindanefnd RIWC 2020.
- Styrktarsamningur við Reykjavíkurborg.
- Styrktarumsókn til ÖBÍ.
Í skýrslu framkvæmdastjóra undir liðnum „starfsmannamál“ var tillaga um að launaliður í nýsamþykktri rekstraráætlun verði hækkaður um 10% en ekki 4% eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Er þetta gert til að mæta þeim launahækkunum sem að nýir kjarasamningar munu væntanlega færa með sér, sem og til að mæta framkomnu launaskriði að því marki að launastefnu félagsins sé framfylgt. Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir launastefnunni sem fylgt hefur verið til margra ára og er svohljóðandi:
„Jafnræði skal gilda í launum á milli kynja og eins milli sjónskertra/blindra og fullsjáandi, þegar um samsvarandi störf er að ræða. Laun starfsfólks Blindrafélagsins skulu taka mið af meðallaunum fyrir samsvarandi störf eins og þau mælast í launakönnunum VR á hverjum tíma. Hæstu laun verði um það bil tvöföld meðallaunum hjá félaginu.“
Á meðan umræða um tillögu framkvæmdastjóra stóð yfir þá viku af fundi SUH. HS, DK og KHE, þar sem þau eru öll á launaskrá hjá félaginu.
Að umræðum loknum var tillaga framkvæmdastjóra samþykkt samhljóða.
Erindi:
Fyrir fundinum lá erindi frá Grænlensku blindrasamtökunum um að Blindrafélagið myndu aðstoða Grænlensku blindrasamtökin við að skipuleggja kynningu á bæði hjálpartækjum og þjónustu sem nýst gæti Grænlensku samtökunum í sínu uppbyggingarstarfi. Ákveðið var að funda með fulltrúa Grænlensku samtakanna þann 25. eða 26. mars næstkomandi þegar hann verður á landinu.
Beiðni um að setja Boccia völl í garðinum á Hamrahlíð 17 frá Ingólfi Garðarssyni. Erindinu vísað til framkvæmdastjóra.
4. Inntaka nýrra félaga.
Fyrir lágu umsóknir um félagsaðild frá 10 nýjum félögum. Voru allar umsóknirnar samþykktar með fyrirvara um staðfestingu aðalfundar félagsins.
5. Framkvæmdir að Hamrahlíð 17.
KHE gerði grein fyrir að nú stæði yfir viðræður við verktaka vegna lokaframkvæmda á Hamrahlíð 17 utanhúss. Kostnaðaráætlun hljóðar uppá um 60 m.kr.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir taki um 3 mánuði og að framkvæmdum verði lokið í lok júní 2019.
SUH greindi frá því að verið væri að undirbúa að senda fyrirspurn til borgarskipulags um möguleika á stækkun á Hamrahlíð 17.
6. Tilnefning í stjórn Eirar.
SUH gerða tillögu um að Blindravinafélagið og Blindrafélagið myndu sameiginlega endurskipa Ólaf Haraldsson í stjórn Eirar á aðalfundi stofnunarinnar nú í vor. Ólafur hafði sjálfur frumkvæði á að bjóða sig fram til áframhaldandi stjórnarsetu.
Var tillagan samþykkt samhljóða.
7. Félagsfundur 21. febrúar.
SUH kynnti að EKÞ myndi verða fundarstjóri og Gísli Helgason fundarritari. Einnig gerði hann grein fyrir að GH hefði fengið þá leiðsögn að hafa fundargerðir félagsfunda markvissari og styttri með hliðsjón af því að fundargerðir ert studdar hljóðupptöku sem er öllum aðgengileg.
SUH lagði fram eftirfarandi tillögu að ályktun til að leggja fyrir félagsfundinn:
„Öruggt þjóðfélag – örugg framfærsla.
Félagsfundur Blindrafélagsins haldinn 21. febrúar 2019 skorar á íslensk stjórnvöld að tryggja fötluðu fólki viðunandi framfærslu með því að tryggja þeim raunverulegt aðgengi að vinnumarkaði til jafns við aðra og með því að tryggja örugga afkomu fyrir þá sem reiða sig á almannatryggingar sér til framfærslu.
Um þessar mundir stendur yfir heildarendurskoðun á almannatryggingarkerfinu með hliðsjón af hugmynda stjórnvalda um nýtt starfsgetumat.
Blindrafélagið fagnar því að stjórnvöld skuli leggja áherslu á málefni fatlaðra með þessu móti en ítrekar jafnframt að öll slík vinna skuli ávallt fara fram með hagsmuni og sjálfsákvörðunarrétt fatlaðra að leiðarljósi. Það er því grundvallarkrafa að allt starf um framtíðar atvinnuumhverfi fatlaðra sé byggt á Sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og í virku samráði við hagsmunafélög fatlaðra.
Staða málaflokksins er í dag ekki góð, þar sem aðgengi að vinnumarkaði er takmarkað og þeir sem þurfa að reiða sig á framfærslu hins opinbera lenda í fátæktargildru skerðinga.
Reynsla nágrannalanda okkar af svokölluðu starfsgetumati er ekki jákvæð og virðist slíkt kerfi ekki hafa borið gæfu til þess að gera atvinnumarkaðinn aðgengilegri né heldur hækka heildartekjur fatlaðra. Það virðist því vera borðleggjandi að endurskoða þessar hugmyndir í ljósi þeirrar reynslu sem hlotist hefur til að mynda á Bretlandi og í Danmörku.
Á meðan unnið er að því að þróa slíkt kerfi er ekkert því til fyrirstöðu að þingheimur afnemi krónu á móti krónu skerðinguna. Það er heldur engin ástæða til þess að bíða lengur með að gera ríkari kröfur til aðila á vinnumarkaði um að tryggja raunverulegt aðgengi að vinnu á réttlátum kjörum og forsendum.
Blindrafélagið hvetur stjórnvöld til að tryggja fjármagn í vinnumarkaðsaðgerðir sem að gera vinnuveitendum kleift að gera allar ráðstafanir sem þarf til að gera viðeigandi aðlögun fyrir blinda og sjónskerta. En kostnaður við slíka aðlögun er ein stærsta hindrunin sem okkar hópur rekur sig á á vinnumarkaði í dag. Jafnframt eru atvinnurekendur hvattir til að skipuleggja störf þannig að þau henti fólki með skerta starfsgetu og tryggja framboð af slíkum störfum.
Blindir og sjónskertir á Íslandi eru virkari á vinnumarkaði en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Þessi hópur sinnir fjölbreyttum störfum og tekur virkan þátt í verðmætasköpun á Íslandi en það er ekki sjálfgefið. Til þess að styðja við þennan hóp og gera honum kleift að sinna vinnu, lengur en ella, þarf að draga úr öllum skerðingum og skapa betri möguleika á stuðningi til virkni.“
Ályktunartillagan var samþykkt samhljóða og mun SUH bera hana fram sem tillögu stjórnar á félagsfundinum.
SUH kynnti tillögu frá Arnþóri Helgasyni og Sigtryggi R. Eyþórssyni um að fela stjórn félagsins um að breyta merki Blindrafélagsins. Tillagan er svohljóðandi:
„Almennur félagsfundur Blindrafélagsins, haldinn að Hamrahlíð 17, Reykjavík, 21. febrúar 2019, felur stjórn félagsins að hefja undirbúning að nýju merki Blindrafélagsins.
Verði merkið byggt á hvíta stafnum, helsta hjálpartæki blindra og sjónskertra og stefnt skal að því að það verði tekið í notkun eigi síðar en 19. ágúst á 80 ára afmæli félagsins.
Stjórn skal leggja fram tillögur þar að lútandi á aðalfundi félagsins vorið 2019, samanber 8. kafla, 21. gr. laga Blindrafélagsins um heiðursmerki."
Greinargerð: Núverandi merki félagsins byggir á íslenska lýsislampanum, sem notaður var á heimilum fram undir aldamótin 1900 og jafnvel lengur, þegar helsta ljósmeti fólks var lýsi.
Merkið ber vitni um hugsun sjáandi fólks og hræðslu þess við blinduna sem myrkvað ástand. Dæmi slíkrar hugsunar sjást víða um heim. Má nefna stofnanir eins og The Lighthouse for the Blind í Bandaríkjunum og vörumerkið Sunshine (sólskin) sem hjálpartæki blindra í Kína eru nefnd eftir.
Eðlilegt er að merki Blindrafélagsins vísi til sjálfstæðis og frelsis sem hvíti stafurinn veitir fjölmörgu fólki víða um heim.
Um leið verði heiðursmerki félagsins og viðurkenningar mótuð með sama hætti að hvíta stafnum.
Arnþór Helgason og Sigtryggur R. Eyþórsson.
Umræður urðu um tillöguna meðal stjórnamanna og var það sjónarmið ríkjandi að tímarammi sem settur er inn í tillöguna væri allt of stuttur og að ekki væri rétt að takmarka hugmyndavinnu fyrir fram og fastsetja að Hvíti stafurinn skyldi vera þungamiðja merkisins. Fram kom í umræðunni að það væru ekki mörg samtök blindra sem að væru með Hvítastafinn í sínu merki. Hins vegar væri merkið „Maðurinn með Hvíta stafinn“ alþjóðlegt og mikið notað, meðal annars af Blindrafélaginu.
Stjórnin samþykkti að leggja fram breytingatillögu sem fæli í sér að tímaramminn til að vega og meta merki félagsins yrði rýmri og engin skilyrði sett fyrir fram um mögulegar útfærslur á nýju eða breyttu merki.
8. Hlutverk stjórnarmanna - stefnumótun.
SUH kynnti skjal með samantekt á skyldum stjórnarmanna, sem sent var stjórnarmönnum fyrir fundinn og kastaði fram þeirri hugmynd að taka innihald þess til umræðu á vettvangi félagsins. Umræður urðu um stefnumótun félagsins í þessu samhengi.
9. Önnur mál.
Óskað eftir að framkvæmdastjóri léti kanna snjógildrur á þaki H-17 og að bæta hljóðvist í fundarherberginu.
Fundi slitið kl. 18:40.
Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.