Fundargerð 15. stjórnarfundar Blindrafélagsins, starfsárið 2018 – 2019, haldinn miðvikudaginn 13. mars kl. 16:00 að Hamrahlíð 17.
Mættir: Sigþór U. Hallfreðsson (SUH) formaður, Eyþór Kamban Þrastarson (EKÞ) gjaldkeri, Hjalti Sigurðsson (HS) ritari, Rúna Ósk Garðarsdóttir (RÓG) meðstjórnandi, Guðmundur Rafn Bjarnason (GRB) varamaður var í símasambandi, Rósa Ragnarsdóttir (RR) varamaður, Þórarinn Þórhallsson (ÞÞ) og Kristinn Halldór Einarsson (KHE) framkvæmdastjóri.
Fjarverandi: Lilja Sveinsdóttir (LS) varaformaður, Dagný Kristmannsdóttir (DK) varamaður.
1. Fundarsetning og lýst eftir öðrum málum.
Formaður (SUH) setti fundinn kl. 16:00 og bauð fundarmenn velkomna.
SUH bar upp tillögu að dagskrá, sem send hafði verið út með fundarboðinu.
Lýst eftir öðrum málum: SUH og EKÞ.
2. Afgreiðsla fundargerðar.
Fundargerð 14. fundar, sem hafði verið send stjórnarmönnum fyrir fundinn, var samþykkt samhljóða með nokkrum orðalagsbreytingum frá SUH.
3. Skýrslur bréf og erindi.
Í skýrslu formanns var fjallað um:
- Ferðaþjónustusamningur við Kópavogsbæ endurnýjaður.
- Tillögur um röð fræðsluerinda.
- Varðveisla menningararfsins.
- Verkefnastyrkur frá Félags- og barnamálaráðuneytinu.
- Landssöfnun Lions „Rauða fjöðrin“ 5. til 7. apríl.
- Hamrahlíð 17, stækkunarmöguleikar.
- Hádegisspjall 27. febrúar.
- 80 ára afmæli Blindrafélagsins.
- Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
- NSK og NKK fundir 4. og 5. mars.
- UNK ráðstefna 2019 - undirbúningur.
- Mikilvægar dagsetningar.
Í skýrslu framkvæmdastjóra var fjallað um:
- Starfsmannamál.
- Framkvæmdir og húsnæðismál.
- Fjáraflanir.
- Ferðaþjónusta.
- Valdar greinar.
- Íbúð laus til útleigu.
- Styrkur frá félagsmálaráðuneytinu.
- Almannarómur.
Erindi:
Fyrir fundinum lá erindi frá Arnþóri Helgasyni og Svavari Guðmundssyni þar sem þeir fóru þess á leit að endurvakinn yrði póstlisti (Blindlist) þar sem fólk gæti skipst á skoðunum um hin ýmsu mál sem eru á döfinni hverju sinni, eins og segir í erindinu.
Stjórnin var einróma í þeirri afstöðu að ekkert tilefni væri til þess að endurvekja tölvupóstlista á vegum félagsins.
4. Inntaka nýrra félaga.
Fyrir lágu umsóknir um félagsaðild frá fjórum nýjum félögum sem bárust í febrúar. Voru allar umsóknirnar samþykktar með fyrirvara um staðfestingu aðalfundar félagsins.
5. Almannarómur, staða verkefna.
KHE gerði grein fyrir því sem er að gerast á vettvangi Almannaróms. Skrifstofa Blindrafélagsins hefur tekið að sér skrifstofu og fjármálaumsýslu fyrir Almannaróm. Þeir starfsmenn sem að sinna því fá sérstaklega greitt fyrir þá vinnu. Almannarómur greiðir svo Blindrafélaginu samkvæmt útgefnum reikningi fyrir þessa vinnu. Nýráðinn framkvæmdastjóri Almannaróms er Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir.
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur falið sjálfseignarstofnuninni Almannaróm rekstur miðstöðvar máltækniáætlunar í íslensku 2018 til 2022. Markmið máltækniáætlunarinnar er að tryggja að hvers kyns tæki og tól tali og skilji íslensku og tungumálinu verði þar með forðað frá stafrænum dauða vegna yfirburðastöðu enskunnar. Alls hafa stjórnvöld eyrnamerkt 2,2 milljarða króna í máltækniáætluninni fram til 2022.
Meðal verkefna sem ráðist verður í er að kynna möguleika máltækni fyrir fyrirtækjum og stofnunum og koma á samstarfi við erlend fyrirtæki sem þróa máltæknilausnir og fylgjast með möguleikum á fjölþjóðlegu þróunarsamstarfi í máltækni. Markmið máltækniáætlunarinnar er m.a. að íslensku verði að finna í öllum tækjabúnaði og í hugbúnaði stærstu tæknifyrirtækja heims. Tími til stefnu er naumur vegna þess að gervigreind og máltækni í heiminum þróast á ógnarhraða og mikilvægt að Ísland sitji ekki eftir.
Forgangsverkefni máltækniáætlunarinnar eru þau verkefni sem mynda nauðsynlegan grunn fyrir áframhaldandi þróun á mismunandi sviðum máltækni fyrir íslensku. Verkefnin eru flokkuð í talgreiningu, talgervingu, vélþýðingar, málrýni og málföng. Máltækni fyrir íslensku 2018 – 2022 – Verkáætlun má finna á: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=56f6368e-54f0-11e7-941a-005056bc530c
Þriðjudaginn 12 mars var birt á útboðsvef Ríkiskaupa fyrsta skref verkáætlunar um máltækni fyrir íslensku þegar að birt var auglýsing þar sem aðilar á sviði máltækni eru beðnir um ítarlegar upplýsingar sem nýttar verða til að ljúka hönnun útboðsferilsins. Auglýsingin birtist lögum samkvæmt einnig á TED, evrópska útboðsvefnum.
Stutt samantekt á auglýsingunni lauslega þýtt úr ensku er svohljóðandi:
„Ríkiskaup, fyrir hönd Almannaróms — Miðstöðvar um máltækni, áformar að bjóða út smíði á fjórum kjarnalausnum í íslenskri máltækni: talgreining, talgervingu, vélþýðingu og stafsetningar og málfarsleiðréttingu, auk málfanga og stuðningsverkfæra sem nauðsynleg eru til að smíða þessar kjarnalausnir. Ríkiskaup óska eftir upplýsingum um fyrirtæki sem búa yfir nægri þekkingu og færni til að taka að sér þesskonar verkefni“
SUH áréttaði hversu mikilvæg þessi verkefni eru fyrir blinda og sjónskerta og að Blindrafélagið hefur allt frá stofnun Almannaróms tekið virkan þátt í þessu starfi og Kristinn H. Einarsson framkvæmdastjóri félagsins setið í stjórn Almannaróms frá upphafi. Stjórnarmenn lýstu mikilli ánægju með þessa þróun.
6. Afmælishátíð Blindrafélagsins.
SUH gerði grein fyrir undirbúningi fyrir 80 ára afmælishátíð Blindrafélagsins. Fyrir liggur að hátíðardagskrá verður mánudaginn 19 ágúst á Nordica. Einnig liggur fyrir að Blindrafélagið mun verða heiðursgestur Reykjavíkurborgar á Menningarnótt þann 24 ágúst og fær félagið Tjarnarsalinn í Ráðhúsinu til umráða. Unnið er að því að raða saman dagskrá fyrir báða þessa daga.
Rætt var um mögulega veitingu Samfélagslampa Blindrafélagsins og Gulllampa félagsins.
7. Afmæli Fjólu, félags fólks með samþætta sjón og heyrnarskerðingu.
SUH gerði grein fyrir því að Fjóla, félag fólks með samþætta sjón og heyrnarskerðingu, ætti 25 ára afmæli í ár en Fjóla var stofnuð 15. mars 1994. SUH gerði það að tillögu sinni að Blindrafélagið færði Fjólu eina milljón í afmælisgjöf. Gjöfin verði greidd úr Verkefnasjóði félagsins. Tillagan var samþykkt samhljóða.
8. Fræðsluerindi.
SUH kynnti hugmyndir að eftirfarandi fræðsluerindum á næstu vikum og mánuðum:
- Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna.
- Algild hönnun utandyra.
- Ný tækni með áherslu á umfjöllun á UNK ráðstefnunni.
- Efni frá EBU um Samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
- Heilatengd sjónskerðing.
Hugmyndirnar fengu jákvæð viðbrögð stjórnarmanna og var samþykkt að láta þýða efni frá EBU um Samning SÞ.
9. Varðveisla menningararfs.
SUH greind frá því að auglýsingar eftir menningarefni af vettvangi félagsins meðal félagsmanna hafa lítinn sem engan árangur borið. SUH sagði frá því að könnun á kostnaði við að skrásetja efni gamalla valdra greina hafi reynst vera of dýrt (6 – 8 m.kr.) til að réttlætanlegt væri að ráðast í það á þeim forsendum sem að það var skoðað.
Myndir úr starfi félagsins eru til á stafrænu formi og hefur Ljósmyndasafni Reykjavíkur verið send fyrirspurn um hvort að safnið gæti hugsað sér að taka myndasafnið til varðveislu.
Verið er að ganga frá kaupum og uppsetningu á sérstökum netþjóni sem ætlaður er til að varðveita þetta efni á einum stað og tryggja aðgengi að því og öryggisafritun.
Framkvæmdastjóra var falið að ræða við Gísla Helgason um að taka til efni sem tilheyrir félaginu og er í hans vörslu og um að yfirfæra á stafrænt form efni í einkaeigu sem er í hans vörslu og vilji er til að félagið fái aðgang að.
10. Framkvæmdir við Hamrahlíð 17.
KHE gerði grein fyrr að eftir töluverða yfirlegu lægi nú fyrir að semja við eftirfarandi verktaka um að taka að sér viðhaldsframkvæmdir á Hamrahlíð 17 nú í sumar. Verktakarnir eru: Fagmálun, Steinarr Guðmundsson múrarameistari og Smíðalist. Samningar náðust ekki við Smíðavík (Guðlaug Jónsson trésmið), þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, en hans tilboð var um 7 m.kr. (20%) hærra en kostnaðaráætlun hljóðaði uppá. Vegna þessa þá var gengið til samninga við Kristmund Eggertsson hjá Smíðalist og bauð hann að vinna verkið fyrir 5 m.kr. lægri upphæð en Guðlaugur var tilbúinn til að gera. Guðlaugi var boðið að fá verkið á þeim kjörum en hann hafnaði því. Fjárhagsáætlun hljóðar uppá 55,5 m.kr. að frádregnum vinnupöllum og krönum.
Trésmíði: 33,0 m.kr.
Múrverk: 9,4 m.kr.
Málun: 13,1 m.kr.
Samtals 55,5 m.kr.
VSB verkfræðistofa mun sinna eftirliti með verkinu eins og fyrri áfanga.
Heildarkostnaður er áætlaður um 60 m.kr.
Fyrirhugað er að framkvæmdir hefjist í apríl mánuði og verði lokið í einum áfanga.
Stjórn félagsins samþykkti að gefa formanni og framkvæmdastjóra heimild til að semja á þessum nótum við verktakana.
11. Merki félagsins.
SUH gerði að tillögu að því að FSF yrði fenginn til að gera greinagerð um merki félagsins, styrkleika þess og veikleika, sögulegt og merkingafræðilegt samhengi, markaðslegt verðmæti og svo framvegis. Að slíkri samantekt lokinni væri tímabært að skipa nefnd í samræmi við samþykkt seinasta félagsfundar Blindrafélagsins.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
12. Önnur mál.
SUH minnti á kjararáðstefnu ÖBÍ sem haldinn verður 19 mars á Grand Hótel.
EKÞ vakti athygli á að þörf væri á að uppfæra íslensku þýðinguna á NVDA skjálesaranum. KHE benti á möguleikana á að sækja um styrk frá Stuðningi til sjálfstæðis til þess verkefnis. EKÞ mun í samráði við þá sem stóðu að þýðingunni á sínum tíma, huga að því að uppfæra hana.
Fundi slitið kl. 18:15.
Fundargerð ritaði Kristinn Halldór Einarsson.