Vorhappdrætti Blindrafélagsins 2008

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi er að mjög litlu leyti rekið fyrir opinbert fé. Blindrafélagið hefur byggt starfsemi sína á frjálsum framlögum og notið ómetanlegs stuðnings almennings í þau 69 ár sem það hefur starfað.

Blindrafélagið vinnur nú að fjölgun leiðsöguhunda fyrir blinda á Íslandi en miðað við nágrannalöndin væri ekki óeðlilegt að ætla að u.þ.b. 20 einstaklingar gætu nýtt sér þjónustu þeirra við athafnir daglegs lífs.

Í haust eru væntanlegir til landsins 4 leiðsöguhundar fyrir blinda sem þjálfaðir eru í hundaskóla norsku blindrasamtakanna og á næsta ári munu koma 2 til viðbótar. Þetta metnaðarfulla verkefni mun kosta Blindrafélagið um tólf milljónir króna.

Stuðlum að því að leiðsöguhundar fyrir blinda verði algengari sjón á götum landsins og höfum í huga að góður leiðsöguhundur getur veitt eiganda sínum ómetanlega þjónustu og félagsskap í u.þ.b. 10 ár. Blindrafélagið hvetur landsmenn að leggja þessu góða málefni lið.

Ein veigamesta fjáröflunarleið félagsins er happdrætti. Fyrir lok apríl fá öll heimili og fyrirtæki í landinu sendan happdrættismiða í pósti. Það er von okkar að landsmenn taki happdrættinu vel og kaupi miða til styrktar starfseminni. Margir veglegir vinningar eru í boði. Einnig er hægt að kaupa miða á skrifstofu Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17, 105 Reykjavík og í síma 525-0000 eða panta á heimasíðu félagsins

Miðinn kostar kr. 1.500. Skrifstofan er opin frá kl. 9-16 alla virka daga.

Dregið verður í vorhappdrætti Blindrafélagsins 13. júní 2008.