Ágætu félagsmenn í Blindrafélaginu.
Það styttist í aðalfund félagsins og frestur til að tilkynna um framboð til stjórnarkjörs rennur út nk. laugardag. Í nóvember síðastliðnum lýsti ég því yfir, eftir fjölda áskorana, að ég hygðist bjóða mig fram til formennsku í stjórn Blindrafélagsins. Síðan hefur eins og þið vitið mikið vatn runnið til sjávar og því miður hafa átök og deilur á milli örfárra manna sett mark sitt á alla starfsemi félagsins. Þessi átök hafa ekki farið framhjá félagsmönnum sem hafa neyðst til þess að sækja fundi, setja sig inn í málsatvik og taka afstöðu til þessa djúpstæða ágreinings sem uppi hefur verið. Félagsfundurinn sem nú hefur verið boðaður um það sem kalla má endurtekið efni er í raun sorglegt dæmi um það ónæði og þau leiðindi sem óhjákvæmilegt hefur verið að valda ykkur og þykir mér mjög fyrir því.
„Sjaldan veldur einn þá tveir deila“ segir máltækið og eflaust á það við um átökin í Blindrafélaginu í aðdraganda og eftirmálum þess að stjórn félagsins fann sig knúna til að lýsa vantrausti á formann þess. Sjálfur er ég raunar sannfærður um að stjórninni var nauðugur sá kostur sem gripið var til og erfitt er að lesa annað úr skýrslu sannleiksnefndarinnar en að svo hafi verið. Í skýrslunni er dregin upp skýr mynd af atburðarásinni en því miður blasir sú staðreynd við að deiluaðilar túlka skýrsluna með ólíkum hætti og því ljóst að hún ber engin klæði á vopnin.
Sátt í félaginu okkar er lykilatriði til þess að það geti verið félagsmönnunum skjól og stuðningur. Sáttin er líka grundvallaratriði í þeirri miklu velvild sem við njótum úti í samfélaginu hvað varðar margþættan stuðning við Blindrafélagið. Og sátt á meðal félagsmanna er einnig forsenda þess að við getum styrkt innviði og verkferla í takti við þær ábendingar sem sannleiksnefndin nefnir í skýrslu sinni.
Ég vil leggja mitt af mörkum til þessarar sáttar með því að falla frá fyrirhuguðu framboði mínu til formennsku í stjórn félagsins. Ég tel einfaldlega að nýr aðili í formannsstóli, óháður deilum undanfarinna mánuða og missera, sé vænlegri kostur fyrir Blindrafélagið en uppgjör þess á milli þeirra sem tekist hafa á. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því líka að reynsla mín af forystuhlutverki innan Blindrafélagsins á undanförnum árum kann að vera dýrmæt og því mun ég bjóða mig fram til setu í stjórn. Í því hlutverki er ég reiðubúinn til þess að halda áfram að leggja mitt af mörkum og vera nýjum leiðtoga til trausts og halds.
Með von um breytta og betri tíma í félagsstarfi okkar í framhaldi komandi aðalfundar,
Halldór Sævar Guðbergsson