Reykjavík 15.07.2010
Í fréttum RUV er greint frá því að Astma- og ofnæmissamtökin, telji óþarft að breyta ákvæði í lögum um fjöleignarhús, um fortakslausan neitunarrétt einstakra íbúðareigenda, til að banna blindum einstaklingum að búa í fjöleignarhúsi með leiðsöguhund. Telja Astma og ofnæmissamtökin „mun heppilegra að aðstoða notendur leiðsöguhunda við að flytjast í annað húsnæði.“ Í fréttinni er jafnframt sagt að leiðsöguhundar á Íslandi séu í kringum 100.
Þessi afstaða Astma- og ofnæmissamtakanna eru Blindrafélaginu mikil vonbrigði. Að mati Blindrafélagsins kemur fram í þessari afstöðu viðhorf um að réttur blindra og sjónskertra til að búa á heimilum sínum og njóta bestu mögulegu lífsgæða, skuli vera minni en annarra. Jafnframt opinberar þessi afstaða mikla vanþekkingu á stöðu leiðsöguhunda, notkun þeirra og þýðingu fyrir notendur sina. Leiðsöguhundar fyrir blinda eru skilgreindir sem hjálpartæki í opinberum reglugerðum. Á Íslandi eru í dag starfandi 5 leiðsöguhundar fyrir blinda og sjónskerta, ekki um eitt hundrað.
Núgildandi lög um fjöleignarhús frá 1994 gera mikið meira en að verja rétt þeirra sem eru með dýraofnæmi. Þau gefa öllum, án þess að tilgreina málefnalegar ástæður, rétt til að neita blindum einstaklingi um að fá til sín leiðsöguhund og búa með hann í íbúð sinni í fjöleignarhúsi. Þetta er það sem er athugavert við núgildandi lög. Þessi lög eru jafnframt brot á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur skrifað undir og nú er unnið að innleiðingu á á vegum stjórnvalda.
Sú hugmynd að „aðstoða“, jafnvel gegn vilja, blindan einstakling sem þarf á leiðsöguhundi að halda að flytja í annað húsnæði, eða að öðrum kosti að láta frá sér sitt mikilvægasta hjálpartæki, er algerlega fráleitt og gróft mannréttindabrot. Auk þess sem vafi hlýtur að leika á hvort að slíkt brjóti ekki í bága við eignarréttarákvæði Stjórnarskrárinnar, þegar hinn blindi einstaklingur er eigandi íbúðar í fjöleignarhúsi sem hrekja á hann úr.
Að mati Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, er brýn nauðsyn til að gera breytingar á núverandi fjöleignarhúsalögum frá 1994. Ákvæði þeirra laga um dýrahald eru mjög óréttlát þegar kemur að leiðsöguhundum fyrir blinda eða hjálparhundum fyrir fatlaða. Tryggja verður að einstaklingar sem hafa engar málefnalegar ástæður, geti ekki komið í veg fyrir að blindir eða fatlaðir einstaklingar fái til sín leiðsögu- eða hjálparhund, hafi þeir þörf á því, og búið með hann í fjöleignarhúsi.
Meginmál