Breyta þarf fjöleignarhúsalögum til að tryggja að rétt leiðsöguhundanotenda

Andstaða, að því er virðist, eins íbúa í blokkinni sem Svanhildur Anna býr í, við að leyfa henni að vera með leiðsöguhundinn Exo, hefur vakið mikla athygli. Fréttir hafa verið sagðar af málinu á RUV, MBL.is og DV. Einnig hefur verið stofnuð Face bókar síða til stuðnings Svanhildi Önnu. 

Hér fyrir neðan má lesa frekari fréttir fjölmiðla af málinu. 

Frétt frá RUV

Formaður Blindrafélagsins vill að lögum um dýrahald í fjölbýlishúsum verði breytt. Hann segir rangt að flokka leiðsöguhunda sem hver önnur gæludýr.

Svanhildur Anna Sveinsdóttir, sjónskert kona á Akranesi, hefur, sem kunnugt er, ekki fengið áframhaldandi leyfi til að hafa leiðsöguhund í íbúð sinni í fjölbýlishúsi, vegna andstöðu eins íbúa í húsinu.

Stjórn húsfélagsins fundaði vegna málsins í gærkvöldi og ákvað að beina þeim tilmælum til íbúðareigenda að Svanhildur fái rýmri frest til að leita sér að öðru húsnæði, en staðan er sú í dag að hundurinn þarf að víkja fyrir 1. nóvember. Formaður blindrafélagsins segist ekki þekkja önnur dæmi um árekstra af þessu tagi.

Hundarnir hafi farið í gengum mikla þjálfun, af þeim stafi engin hætta.

Viðtal við fromann Blindrafélagsins í kvöldfréttum sjónvarps 13 júlí:

 

Úr fréttum DV

Svanhildur Anna: „Ég hef ekki heyrt orð“

Innlent 09:43 › 13. júlí 2010

Svanhildur og hundurinn hennar Exo.

„Ég hef ekki heyrt orð,“ segir Svanhildur Anna Sveinsdóttir aðspurð um það hvort að hún fái að búa áfram í íbúð sinni á Akranesi með blindrahundinum Exo. Haldinn var húsfundur vegna málsins í gærkvöldi en Svanhildur hefur ekki fengið að heyra hvað fór fram á honum eða hver niðurstaðan þar var.

Svanhildur er sjón- og heyrnarskert og þjáist af jafnvægisleysi eftir heilaæxli. Hún fékk nýlega hund sem hjálpar henni mikið í daglegu lífi. Hún býr í fjölbýlishúsi á Akranesi og getur ekki haft hundinn nema með samþykki allra íbúa. Íbúar sem fluttu nýlega inn í húsið hafa ekki veitt henni leyfi þeirra. Því bendir allt til þess að hún þurfi að velja milli íbúðarinnar og hundsins.

Málið hefur vakið gríðarlega athygli á Akranesi, og eru margir íbúar bæjarins ósáttir við það að Svanhildur þurfi að flytja með hundinn úr íbúðinni sinni. Húsfélagið ákvað að halda fund vegna stöðunnar í kærkvöldi. Endurskoða átti ákvörðun um að framlengja ekki leyfið sem Svanhildur hefur til að vera með Exo. Íbúar sem DV hafði samband við vildu ekkert tjá sig um málið.

„Exo hefur reynst mér mjög vel þennan stutta tíma sem við höfum átt saman. Ég vona að hann þurfi ekki að fara. Það er svo mikill styrkur að hafa hann. Hann er mér svo góður förunautur þegar ég er úti, og veitir mér svo mikið öryggi. Það bætir lífskjörin að hafa hann. Fólk hefur talað um hvað það sé gaman að sjá mig á röltinu úti við, því áður en ég fékk hundinn, sem hefur auðveldað mér svo mikið að komast út fyrir húsið, var ég lítið á ferðinni. Lífið hefur gjörbreyst með tilkomu Exo,“ sagði Svanhildur við DV.is í gærkvöldi.

„Ég hef fundið fyrir gríðarlegum stuðningi í dag, fólk hefur lýst yfir hneykslun sinni yfir þessari stöðu. Exo er rosalega ljúfur og stilltur. Hann geltir ekki og ónáðar engan,“ sagði Svanhildur.

Jón Bjarki Magnússon