Vorhappdrætti Blindrafélagsins 2017

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, fjármagnar starfssemi sína að langmestu leyti með sjálfsaflafé. Þar gegnir happdrætti félagsins, með sínum glæsilegu vinningum, veigamiklu hlutverki. Með því að kaupa happdrættismiða tekur þú virkan þátt í að styðja til sjálfstæðis blinda og sjónskerta einstaklinga á öllum aldri og stuðlar þannig að auknum lífsgæðum þeirra og um leið betra samfélagi.

Velunnurum félagsins hafa verið sendir miðar í pósti og þeir munu jafnframt birtast í heimabanka viðkomandi sem valkrafa. Þeir sem kjósa að styrkja Blindrafélagið með miðakaupum, miðaverð 2900 kr., eiga möguleika á að vinna einhvern eftirtalinna vinninga:

·         Opel Astra Enjoy 1,4l. bensín, sjálfskiptur, að verðmæti kr. 3.390.000
·         Opel Corsa Essentia 1,2l. bensín, sjålfskiptur. að verðmæti kr. 2.490.000
·         40 ferðavinningar með leiguflugi frá Heimsferðum, hver að verðmæti kr. 300.000
·         40 Samsung Galaxy S8, snjallsími, að verðmæti kr. 119.900
·         25 Samsung Galaxy S7, snjallsími, að verðmæti kr. 74.900
·         25 Samsung Galaxy TAB S2 WiFi, spjaldtölva, að verðmæti kr. 74.900

           

Alls 162 vinningar að heildarverðmæti rúmar 29 milljónir króna.

Útgefnir miðar eru 60.000.

Dregið verður í happdrættinu 12. júní 2017.


Mynd af happdrættismiðanum

Stuðningur hins opinbera við starf Blindrafélagsins hefur dregist verulega saman á síðustu árum sem leiðir til þess að félagið þarf enn frekar að leita til almennings í landinu eftir stuðningi.

Verkefni Blindrafélagsins eru fjölbreytt og meðal verkefna sem félagið vinnur ötullega að er að úthluta fleirum blindum einstaklingum leiðsöguhunda. Annað mikilvægt verkefni er Vefvarp Blindrafélagsins, nettengd lestölva, sem opnar aðgang að upplýsingum og efni fjölmiðla sem í dag eru að miklu leiti óaðgengilegir eldra blindu og sjónskertu fólki sem ekki er vel tölvulæst. Meðal þess sem hægt er að hlusta á í gegnum vefvarpið er rauntíma lestur á texta í sjónvarpi Ríkissjónvarpsins, lestur á Morgunblaðinu að morgni útgáfudags, Fréttatímanum og öðru efni á vefnum, bækur frá Hljóðbókasafni Íslands, tilkynningar og efni frá Blindrafélaginu, fræðslu frá Þjónustu og Þekkingarmiðstöðinni fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, fjölda innlendra og erlendra útvarpsstöðva og margt fleira.

Vefvarpið notar talgervilinn Karl og Dóru við upplesturinn. Ekki þarf neina tölvukunnáttu til að geta nýtt tækið. Þessi tækni hefur valdið straumhvörfum í upplýsingamiðlun til blindra og sjónskertra eldri borgara.

Í meira en 75 ár hefur Blindrafélagið, með öflugum stuðningi íslensks almennings, barist af alefli fyrir réttindum blindra og sjónskertra einstaklinga og í dag er félagið í fararbroddi í jafnréttisbaráttu fatlaðra á Íslandi.