Víðsjá 7. árg. 2. tölublað 2015

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, gefur út 2. tölublað Víðsjár fyrir árið 2015.

Víðsjá 7. árg. 2. Tölublað 2015

„Þetta er að meginhluta til helvítis gort“ 

Sigurður G. Tómasson, útvarpsmaður, telur að íslenska heilbrigðiskerfið sé að meginhluta til helvítis gort. Hann segir m.a. frá reynslu sinni í New York þegar önnur sjónhimnan fór að losna. Hann ræðir um sjúkdóminn AMD sem hann er með ásamt um 3.000 manns á Íslandi. Sigurður er einnig nýkjörin formaður AMD deildar Blindrafélagsins. 

Þetta er á meðal efni Víðsjár, tímarits Blindrafélags Íslands, sem er komið út. Þar er fjallað um málefni blindra og sjónskertra og að þessu sinni er blaðið stútfullt af áhugaverðum greinum. 

Sumarbúðir í Danmörku - Snædís Rán segir ferðasögu 

Eftir að systurnar Snædís Rán og Áslaug Ýr fréttu að þær fengju ekki túlkaþjónustu varð þeim ljóst að þær kæmust ekki í sumarbúðirnar í Danmörku án þess að safna dágóðri upphæð. Snædís Rán birti færslu á facebook til þess að láta í ljós óánægju sína yfir ástandinu og þá höfðu einhverjir samband til að fá reikningsnúmer til þess að geta styrkt þær. Þetta rataði í fréttir og í kjölfarið ákvað áhöfn á Polar Amaroq að styrkja systurnar um milljón. Auk þess fengu þær styrki frá Fjólu, félagi fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, og sjóðnum Stuðningi til sjálfstæðis. Peningana á að nota til að greiða túlkum laun og uppihald þar sem enginn í kerfinu fékkst til að greiða það 

Hljóð- og snertisýn 

Hljóð- og snertisýn, Natural Vision through Sounds and Haptics, er nýtt Evrópuverkefni sem Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga tekur þátt í. Verkefnið á að kortleggja þarfir blindra og sjónskertra fyrir aðgengislausnir og reyna að mæta þeim með tæknilausnum.

Blindravitinn 

Blindravitinn er nýtt íslenskt smáforrit í síma og hins vegar vélbúnaður, skynjari sem er settur upp til þess að senda merki í smáforritið. Þessi tækni er nákvæm upp á hálfan metra en GPS er nákvæmt upp á 20−30 m. Verkefnið byrjaði sem prófverkefni í Háskóla Íslands, að finna tæknilausnir til þess að aðstoða blinda og sjónskerta. Viðtal við Ingu Björk Bjarnadóttur Inga Björk ræðir um lífið á örorkubótum, hvað kostnaður í heilbrigðiskerfinu hefur hækkað mikið og hvað bíður hennar eftir útskrift. 

AMD helsta orsök blindu á Vesturlöndum. 

Víðsjá lagði sex spurningar um AMD fyrir Sigríði Másdóttir, augnlækni á Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Tölvusjón vindur fram 

BBC sagði frá því í mars að 72 ára japönsk kona frá Hawaii hefði fengið tölvusjón með Argus II sem gefur ekki fulla sjón en getur gefið fólki töluverða ratsjón. Argus II er annars vegar gleraugu með myndavél og hins vegar lítill sendir sem settur er á nethimnuna og sendir myndir úr gleraugunum með aðstoð sjóntaugarinnar upp í heilann.

Ljósmyndasamkeppnin - Blindir sjá! 

Á menningarnótt í Reykjavík opnaði JCI á Íslandi sýningu á ljósmyndum blindra og sjónskertra. Gestum og gangandi gefst tækifæri til að skoða valdar ljósmyndir úr ljósmyndakeppninni sem stillt verður upp undir berum himni á Skólavörðustíg. 

Víðsjá er kynningarrit Blindrafélagsins og er því ætlað að auka þekkingu á högum blindra og sjónskertra auk þess að veita innsýn í líf og starf félagsmanna. Viðsjá skipar lykilhlutverk í fjáröflunarmálum Blindrafélagsins en félagið þarf að afla 90% af tekjum sínum með eigin fjáröflun til að standa undir nauðsynlegri starfsemi og þjónustu. Víðsjá kemur út tvisvar á ári, að vori og að hausti. Upplag blaðsins er 18.000 eintök. Því er dreift til félagsmanna, styrktarfélaga, bakhjarla og annarra sem stutt hafa félagið á síðastliðnum árum. Auk þess er blaðið sent til ýmissa félaga, fyrirtækja og opinberra aðila með áherslu á þá sem tengjast heilbrigðisþjónustu.

 Samkvæmt könnun Capacent sem gerð var fyrir hönd Blindrafélagsins þá lásu það um 74% þeirra sem voru á póstlista Blindrafélagsins sem gerir það að verkum að um 15 þúsund manns skoðuðu blaðið. Af lesendum voru 82% ánægðir með efnistök blaðsins sem sýnir að ritstjórnarstefna blaðsins höfðar vel til markhópsins. 

Tilgangur Víðsjár er að stuðla að sem viðtækustum skilningi og stuðningi, meðal félagsmanna og almennings á: 

  • Lífsgæðum og mannréttindum blinds og sjónskerts fólks á Íslandi. 
  • Nýjustu rannsóknum og meðferðartilraunum á sviði augnlækninga. 
  • Verkefnum sem eru á vettvangi Blindrafélagsins eða studd af félaginu og heimasíðu félagins, blind.is. 

Stuðningur hins opinbera við starf Blindrafélagsins hefur dregist verulega saman á síðustu árum sem leiðir til þess að félagið þarf enn frekar að leita til almennings í landinu eftir stuðningi.

Nýjasta verkefni Blindrafélagsins er Vefvarp Blindrafélagsins en það er nettengd lestölva sem les upphátt í rauntíma skýringatexta í sjónvarpi, Morgunblaðið, bækur frá Hljóðbókasafni Íslands og margt fleira. Vefvarpið notar talgervilinn Karl og Dóru við upplesturinn. Ekki þarf neina tölvukunnáttu til að geta nýtt tækið. Þessi tækni hefur valdið straumhvörfum í upplýsingamiðlun til blindra og sjónskertra eldri borgara.

 Á þessu ári eru 76 ár frá stofnun Blindrafélagsins. Í allan þann tíma hefur félagið barist af alefli fyrir réttindum blindra og sjónskertra og í dag er félagið í fararbroddi í jafnréttisbaráttu fatlaðra á Íslandi.